„Lykillinn var hvernig strákarnir tókust á við þetta óvænta og skrýtna“

Pavel Ermolinski. Stuðningsmenn Tindastóls voru ekki lengi að taka Pavel upp á arma sína og nú á hann stað í hjörtum þeirra að eilífu.   
MYNDIR: ANDRI / DAVÍÐ MÁR / HJALTI ÁRNA / KKD. TINDASTÓLS
Pavel Ermolinski. Stuðningsmenn Tindastóls voru ekki lengi að taka Pavel upp á arma sína og nú á hann stað í hjörtum þeirra að eilífu. MYNDIR: ANDRI / DAVÍÐ MÁR / HJALTI ÁRNA / KKD. TINDASTÓLS

Körfubolti skiptir máli á Króknum og um langan tíma hefur stefnan verið sett á að ná í Íslandsmeistaratitilinn. Um síðustu áramót var orðið nokkuð ljóst að þáverandi þjálfari meistaraflokks karla hjá Tindastóli, Vladimir Anzulovic, væri ekki alveg með þetta. Frammistaða liðsins, sem flestir töldu í byrjun móts að hefði sjaldan verið jafn vel mannað, var út og suður, stöðugleikinn lítill, brestir komnir í leikgleðina og þolinmæði stuðningsmanna og leikmanna nokkuð teygð og toguð. Það var því ekki annað í stöðunni en að skipta um mann í brúnni. Það kom hins vegar mörgum á óvart þegar það kvisaðist út að Dagur Þór og félagar hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls væru í viðræðum við Pavel Ermolinski um að taka við liðinu. Sumir urðu svo sjokkeraðir að það ætti að ráða Pavel, KR-ing og Valsara sem hafði verið Stólunum erfiður í gegnum tíðina, að þeir sáu fram á að hætta bara að fara á leiki. Aðrir voru spenntir. The rest is history – eins og sagt er í Bretalandi.

Í fræðunum þykir afar mikilvægt í liðsíþróttum að lið búi að reynsluboltum sem hafa séð allt og gert allt. Meistarareynslan er nánast ómetanleg. Hana hafði Pavel eftir fjölmörg ár í atvinnumennsku erlendis og hér heima þar sem hann hafði sjö sinnum orðið meistari með KR og einu sinni með liði Vals. Frábær leikmaður og körfuboltaheili. Hann hafði þó ekki þjálfað áður og því kannski viss áhætta að ráða kappann. Pavel tók við Stólunum í janúar og þó allt gengi ekki eins og smurt strax frá byrjun þá urðu fljótt jákvæðar breytingar hjá liðinu og stemningin óx á pöllunum. Liðið komst á sigurbraut fyrir úrslitakeppnina og leit ekki til baka; sveif áfram á baráttu- og stemningsskýi sem á endanum færði liði Tindastóls sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og öllum sem tengdust liðinu og samfélaginu tæra gleði.

Voru það bara örlögin sem lögðu þessa löngu og ótrúlegu leið að fyrsta titli Tindastóls? Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Pavel og kannski best að byrja akkúrat á þessum punkti. Örlögunum.

Það vakti pínu athygli í kringum leikina í úrslitakeppninni nú í vor að þér varð tíðrætt um örlög. Er þetta eitthvað úr uppeldinu, rótunum, eða eitthvað sem þú hefur meðtekið í gegnum ferilinn – eða er þetta bara trikk til að létta pressunni af leikmönnum þínum, setja leik-inn í hendurnar á einhverju æðra? „Örlög er kannski ekki alveg rétta orðið, ég fann bara ekkert betra,“ segir Pavel til að byrja með. „Þetta er eitthvað sem ég lærði með tímanum. Þegar þú ert kominn á ákveðinn stað þá er erfiðara að hafa stjórn á hlutunum. Taktískir hlutir og upplegg byrja að vega minna. Leikmenn beggja liða spila af 100% krafti. Óvæntir hlutir byrja að gerast. Þeir slá þig út af laginu ef þú ert ekki að nálgast þá af ákveðnu æðruleysi. Mín reynsla er að þegar upp er staðið í lok tímabils þá eru það liðin sem nálgast þetta á þennan hátt sem komast langt, ekki endilega best mönnuðu eða best spilandi liðin.“

Pavel, sem er fæddur í Kiev í janúar 1987, fluttist með fjölskyldu sinni frá Sovétríkjun-um sálugu í Borgarnes, þá aðeins fimm ára gamall. Foreldrar hans eru Alexander Ermolinski og Ljudmila Pála en faðir hans dró fjölskylduna með sér til Íslands eftir að hafa samið um að spila körfubolta með liði Skallagríms. Mörgum er hann ógleymanlegur fyrir þristinn sem hann setti niður í blálok leiks í úrslitakeppni gegn ÍR. Greip boltann, kysst-ann og smellti honum svo niður. Einvígið var í átta liða úrslitum veturinn 1994-95 sem Skallar unnu 2-0.

Hvernig var að alast upp í Borgarnesi, varstu fljótur að ná tökum á íslenskunni og eignast vini? „Það var yndislegt að alast þar upp. Fjölskyldan gat ekki verið heppnari með lendingarstað. Talandi um örlög. Í minningunni eignaðist ég fullt af vinum strax fyrsta daginn og altalandi á íslensku eftir viku. Man allavega ekki eftir mér öðruvísi.“

Finnst þér einhver líkindi með Borgarnesi og Króknum þegar kemur að körfubolta og stemningu? „Já, Borgarnes var á þeim tíma algjört körfuboltabæli. Allt snerist um Skallagrím. Ekki ólíkt því sem er að gerast hjá okkur núna. Það er ótrúlega gaman að taka þátt í íþróttum í þannig umhverfi. Þú finnur hvað þetta skiptir miklu máli.“

Þú varst ansi ungur þegar þú spilaðir fyrsta leikinn í meistaraflokki. Manstu eftir leiknum? „Ég man ekki alveg eftir fyrsta leiknum en mig rámar í fyrsta alvöru tímabilið. Þá var ég í 10. bekk og faðir minn var kominn aftur í Skallagrím, nú sem þjálfari. Ég held að það hafi haft einhver áhrif á liðsvalið þó ég hafi vissulega verið mjög efnilegur á þeim tíma.“ Þess má geta að fyrsta skiptið sem Pavel var á leikskýrslu í meistaraflokki þá var hann aðeins 11 ára. Það var í leik í Njarðvík 6. mars 1998 en hann fékk þó ekki að stíga á parketið í Ljónagryfjunni í það skiptið. Í liði Njarðvíkur voru kappar á borð við Teit Örlygs, frændi hans Örlygur Sturluson og Logi nokkur Gunnarsson. Bæði lið settu niður fjóra þrista í leiknum í alls 23 skotum. Eitthvað hefur boltinn breyst.

Fyrsta tímabil Pavels með liði Skallagríms var veturinn 2001-2002 en þá er hann 14-15 ára. Í liði Skallanna á þessum tíma voru kappar á borð við Finn Jóns, Pálma Sævars, Hafþór Gunnars og Hlyn Bærings. Auk þeirra má nefna Larry Florence og Alexander Ermolinski, föður Pavels. Fimmtán ára skiptir Pavel yfir í ÍR en haustið 2003 lá leiðin út fyrir landsteinana, til Frakklands.

Þú ferð tiltölulega ungur til útlanda í atvinnumennsku, hvert fórstu og hvað var erfið-ast við að vera erlendis og spila? „Ég fór fyrst í eitt ár til Frakklands áður en ég færði mig til Spánar þar sem ég var í tæp sjö ár. Ég var mjög fljótur að aðlaga mig að atvinnu-mannslífsstílnum. Var á vissan hátt alinn upp með þetta í huga. Þetta var mikið ævintýri og ótrúlegur tími í lífi mínu. Maður skildi það ekki þá út af því að maður var bara í hring-iðunni og að reyna að komast áfram. Erfitt að njóta almennilega á meðan á þessu stóð. En núna í dag er ég fullkomnlega meðvitaður um að ég upplifði einstaka hluti.“

Þú tókst nokkra titla með KR og svo með Val. Er einhver þeirra minnisstæðari en aðrir? „Nei, það er aldrei hægt að velja úr. KR árin voru mjög mótandi fyrir mig og það sem við afrekuðum verður ekki leikið eftir. Valsbikarinn var svo mjög persónulegur sigur. Og titillinn sem við unnum fyrir stuttu var sérstakur af tiltölulega augljósum ástæðum. Hver bikar hefur sína sögu. Maður verður að virða það.“

Íslenska landsliðið hefur náð eftirtektarverðum árangri síðustu árin. Hvað fannst þér um að spila með landsliðinu? „Landsliðsparturinn á ferlinum er mögulega sá skemmtilegasti að mörgu leyti. Sama hvað bjátaði á eða hvar þú varst í lífinu eða körfunni þá var alltaf svo róandi að komast í landsliðsprógrammið. Kunnugleg andlit, mikil vinátta, enginn að hugsa um sjálfan sig, liðið alltaf fyrst. Fyrsta Evrópumótið sem við komumst á sem fór fram í Berlín var svo frábær tími. Við vorum eins og litlir krakkar í Disneylandi. Nutum hverrar stundar sem við vorum þarna þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni náð að vinna leik.“

Tindastóll meira en
bara körfuboltamennirnar

Að Tindastólsliðinu. Þú hefur væntanlega verið búinn að sjá eitthvað til Tindastólsliðsins í vetur áður en þú tókst við liðinu. Sástu fyrir þér að þessi hópur gæti orðið Íslandsmeistari? „Já, hiklaust. Ég fékk auðvitað bara að sjá leikmennina og hæfileikana. Af þeim að dæma var ég handviss. En það er bara lítill hluti af því sem þarf. Ég vissi auðvitað ekki á þeim tíma hvernig stemningin var og hvernig mönnum leið. En á móti mér tóku bara helvíti hressir náungar í toppformi. Það var mjög góður andi í liðinu. Það þurfti bara aðeins að sleppa af sér beislinu og finna styrkleika liðsins á náttúrulegan hátt. Og það svo og gerðist. Á endanum spiluðu þeir eins og lið sem er búið að vera lengi saman.“

Hvert er hlutverk aðstoðar-þjálfara, er mikilvægt að hafa öflugt teymi á bak við sig við þjálfun? „Hlutverk aðstoðarþjálfara er mismunandi eftir liðum og hvað þjálfarinn vill. Ég var mjög heppinn að Helgi og Svavar voru til staðar þegar ég kom. Treyjurnar þeirra hanga uppi á veggnum í Síkinu. Það þýðir eitthvað. Þeir kunna á Tindastól sem heildar apparat. Þeir skilja Skagafjörðinn. Það er ómetanlegt. Fyrir utan að vera körfuboltaheilar. Við náðum mjög vel saman. Þeir áttuðu sig nokkuð fljótt á mér og það er alveg ljóst að þeirra framlag auðveldaði allt fyrir mér. Ég er meðvitaður um það.“

Pavel er í sambandi með Rögnu Margréti Brynjarsdóttur en hún er reyndar ættuð af Króknum, langafi hennar var Pétur Laxdal smiður sem bjó með fjölskyldu sinni á Freyju-götunni árin í kringum 1940 en flutti síðar á Sigló. Pavel og Ragna Margrét áttu eitt barn þegar þau fluttu á Krókinn í byrjun árs og annað bættist við í miðri úrslitakeppninni. Pavel segir það hafa verið mjög erfitt. „Sérstaklega fyrir konuna mína sem var dálitið ein að sjá um þetta. Síðustu tvær vikurnar í keppninni voru algjör rússibani sem ég man varla eftir satt að segja.“

Nú töpuðust báðir heimaleikirnir í úrslitaeinvíginu gegn Val, þrátt fyrir að við teldum okkur nánast ósigrandi á heimavelli með bestu stuðningsmenn landsins á pöllunum. Getur stuðningurinn stundum verið of mikill, að hann breytist í pressu, eða var einhver önnur skýring á því að Stólarnir spiluðu betur á Hlíðarenda en í Síkinu í þessari rimmu? „Þetta er athyglisvert mál og eitthvað sem ég hef hugsað mikið um. Ég hef sjálfur spilað í Síkinu sem andstæðingur og ég veit hversu erfitt það er. Maður á ekki að geta unnið þarna í þessari umgjörð sem að skapast. Hins vegar held ég að það sé alveg klárt að pressan á strákunum var orðin gífurleg. Það var einhver orka yfir bænum meðan á einvíginu stóð. Gleði og partý. Eftirvænting. Og mig grunar að þeim hafi liðið eins og þeir gætu eyðilagt þetta partý. Það var ákveðið verk að fá þá til þess að skilja að svo væri ekki og að allir væru stoltir af þeim.“

Hefði lið Tindastóls orðið Íslandsmeistari ef þessi stemning og ástríða á bak við liðið hefði ekki verið til staðar? „Ég hef alltaf talið að Tindastóll sé meira en bara körfuboltaleikmennirnir. Þetta er heildarpakki, það er einhver tenging. Og þetta spilar svo sterkt saman. Ekkert annað lið getur boðið upp á svona pakka.“

Hver var tilfinningin eftir að oddaleiknum lauk, hvað gladdi þig? „Það gladdi mig mest að vera þarna. Það eru allir meðvitaðir um hvað þetta er þýðingarmikið. Allt Ísland veit það. Og að fá að vera þarna sem hluti af liðinu var mjög merkilegt fyrir mig. Ég var þakklátur fyrir að vera svo heppinn að upplifa þetta réttu megin.“

Nú þegar nokkuð er um liðið og rykið sums staðar farið að setjast, hvernig fannst þér úrslitakeppnin spilast, var einhver vendipunktur í henni eða réðu tómar tilviljanir úrslitum? „Ég held að fjórði leikur á móti Keflavík í 8 liða úrslitum hafi verið vendipunktur. Við töpuðum leiknum á undan mjög sannfærandi. Vorum á miklu flugi fram að honum. Og þessi fjórði leikur var prófraun á hversu sterkir andlega við í raun og veru vorum. Það hefði ekki verið óeðlilegt ef þetta stóra tap hefði vakið efasemdir í okkur. En strákarnir komu út og spiluðu eins og kóngar og ekki snefill af efa. Þá vissi ég að þetta er raunveruleg vél sem lætur ekki slá sig út af laginu.“

Hvers vegna varð lið Tindastóls meistari, hvað hafði það til að bera? „Allt sem Íslandsmeistaralið þarf að hafa. Hæfileika, karakter, stuðning o.s.frv. En lykillinn var hvernig strákarnir tókust á við þetta óvænta og skrýtna. Þetta er langt ferðalag og þú þarft að vera trúr sjálfum þér allan tímann. Standa og falla með því sem þú ert. Það er og verður alltaf lykillinn.“

Þú hefur ákveðið að vera áfram á Króknum. Markmiðið fyrir næsta tímabil er væntanlega að verða meistarar aftur. Hvað þarf til? „Þú byrjar því miður alltaf á núlli. Þú þarft að fara í gegnum þetta allt aftur. Ferðalagið er alltaf eins og jafn krefjandi. Hins vegar er það ákveðin forgjöf að hafa gert það áður – þú veist hvað er að koma.“

- - - - - 
Myndirnar hér að neðan eru frá Andra, Davíð Má, Hjalta Árna og mögulega fleirum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir