Kormákur/Hvöt með góðan sigur í Laugardalnum

Lið Kormáks/Hvatar var í eldlínunnni í Mjólkurbikarnum í dag en Húnvetningar skelltu sér í Laugardalinn þar sem græðlingur úr starfi Þróttar, SR, beið þeirra. Liðin höfðu áður mæst nokkrum sinnum í gömlu 4. deildinni og bæði unnið tvo leiki. Í dag náðu Húnvetningar yfirhöndinni í þessari baráttu því þeir köstuðu SR úr keppni með sterkum 2-4 sigri.

Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum Aðdáendasíðu Kormáks þá voru gestirnir með yfirhöndina framan af leik en heimamenn beittu skyndisóknum. Fyrsta markið gerði Kristinn Bjarni eftir góðan undirbúning Benna og Artur Jan Balicki tvöfaldaði forystuna fyrir hlé. Ingvi Rafn þjálfari gerði þrefalda skiptingu í hálfleik og ekki virtist það draga úr Húnvetningum sem komust í 0-3 eftir snarpa sókn sem lauk með því Artur skoraði annað mark sitt eftir sendingu frá Gústa. Kristinn Bjarni kom gestunum síðan í 0-4 eftir að hafa komið boltanum í netið af harðfylgi. Leikmenn SR gáfust ekki upp og löguðu stöðuna, gerðu tvö mörk áður en yfir lauk en það dugði ekki til.

Lið Kormáks/Hvatar leikur á ný í 2. umferð Mjólkurbikarsins sunnudaginn 14. apríl og fær þá aftur að spila á útivelli, þá gegn liði Augnabliks í Fífunni í Kópavogi. Augnablik teflir fram liði í 3. deild í sumar en Húnvetningar taka sér stöðu í 2. deildinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir