Boltinn féll ekki fyrir Stólana í kvöld og Valsmenn tóku titilinn | UPPFÆRT
Það er ekki laust við að það hafi verið nokkur þreytubragur á liðum Vals og Tindastóls þegar þau áttust við í hreinum úrslitaleik í Origo-höllinni í kvöld. Leikurinn var æsispennandi lengstum, Stólarnir flugu úr startholunum en síðan fóru skotin að geiga og Valsmenn, með Hjálmar Stefánsson í ofurformi, jöfnuðu leikinn og komust yfir fyrir hlé. Jafnt var í hálfleik, 36-36, en í síðari hálfleik fór sóknarleikur beggja liða að hökta verulega og lítið skorað. Einu stigi munaði fyrir lokafjórðunginn en þá var eins og orkan væri meiri í heimaliðinu sem náði yfirhöndinni og náði í sigurinn. Lokatölur 73-60 og til hamingju Valsmenn!
Það var að sjálfsögðu uppselt í höll Valsmanna og stemningin eftir því. Leikurinn fór sem fyrr segir vel af stað fyrir lið Tindastóls þó smá skjálfti hafi verið í báðum liðum í upphafi. Stólarnir komust í 3-13 en þá tók Finnur leikhlé og setti Kobba Daltón og Hjálmar Stefáns inn á og þeir komu með annan kraft í leik Vals. Hjálmar gerð níu stig í röð fyrir Val en þristar frá Pétri og Arnari leiðréttu kúrsinn hjá Stólunum sem leiddu 14-22 að loknum fyrsta leikhluta. Badmus jók muninn á ný í tíu stig í upphafi annars leikhluta og um miðjan leikhlutann var staðan 21-30 fyrir Tindastól. Í raun hefði staða gestanna getað verið mun betri því sóknarleikur Tindastóls gekk vel fyrsta stundarfjórðunginn og liðið fékk urmulinn allan af góðum skotfærum en þetta voru því miður mest púðurskot. Zoran Vrkic fékk að spreyta sig, spilaði heilar 18 mínútur í leiknum en hann gat lítið beitt sér og skotin vildu ekki niður. Valsmenn náðu síðan góðum kafla síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks, náðu þá 12-0 kafla, Kristó jafnaði með troðslu, Lawson skellti í þrist og kom heimamönnum í 36-33 en Arnar smellti í þrist og jafnaði rétt fyrir hlé.
Fimm stig frá Pavel komu Valsmönnum í 44-39 snemma í þriðja leikhluta og Valsmenn héldu forystunni allt til loka. Spennan var þó enn fyrir hendi því ekki hleyptu Stólarnir heimamönnum of langt frá sér. Nú þurftu bæði lið að hafa mikið fyrir stigunum og hvað eftir annað þvingaði góð vörn Valsara Stólana í að tapa boltum eða í erfið skot. Annar þristur frá Arnari sá til þess að það munaði aðeins einu stigi á liðunum fyrir lokafjórðunginn, 50-49. Stólarnir gerðu aðeins 13 stig í þriðja leikhluta og enn harðnaði á dalnum í þeim fjórða. Liðið gerði aðeins fjögur stig fyrstu fimm mínútur leikhlutans en Valsmönnum gekk heldur skár, gerðu tíu og leiddu því 60-53. Síðustu fimm mínúturna fjaraði undan Stólunum og lið Vals náði að verjast vel og refsa gestunum á hinum endanum. Enginn leikmanna Tindastóls fann nothæfa fjöl í Origo-höllinni og því fór sem fór.
Takk fyrir okkur!
Taiwo Badmus var flottur í fyrri hálfleik og gerði þá 16 af 17 stigum sínum í leiknum en Valsliðið náði að loka á að hann kæmist að körfunni í síðari hálfleik. Bess gerði 13 stig og tók tíu fráköst, Arnar skilaði niður fjórum þristum og gerði því 12 stig, Siggi var með átta stig en Pétur gerði sex stig og átti sex stoðsendingar ... já og stal fjórum boltum. Hvorki Pétur né Arnar náðu að skora innan teigs og segir það væntanlega eitthvað um varnarleik Vals en heimamenn tóku 54 fráköst á meðan Stólarnir tóku 42. Hjálmar var stigahæstur Valsmanna með 24 stig en Kristófer Acox var með 13 stig og hirti 19 fráköst.
Aðeins sex leikmenn Tindastóls skoruðu í kvöld en sjö í liði Vals. Aðeins tveir leikmenn Vals gerðu meira en tíu stig í leiknum. Valsmenn gerðu 40 stig í teignum en Stólarnir aðeins 20. Valsmenn fengu 31 stig af bekk en Stólarnir 4.
Það verður ekki annað sagt en að lið Tindastóls hafi verið gjörsamlega geggjað í úrslitakeppninni og hefur fært stuðningsmönnum sínum og miklu fleiri ómælda gleði. Liðið spilaði 14 leiki í úrslitakeppninni, þar af ansi marga naglbíta, vann þrjá leiki eftir framlengingar og mætti til leiks í alla leik með ótrúlega orku. Þegar horft er til baka verða örugglega margir sem líta á þriðja leik liðanna sem stóra möguleika Stólanna til að taka titilinn en þá missti liðið niður 21 stig forystu. Það gerist hins vegar margt í einum körfuboltaleik og ekki á vísan að róa þó aflabrögð séu til fyrirmyndar í fyrri hálfleik.
Þó titillinn hafi ekki endað á Króknum í kvöld þá óskum við öll liði Tindastóls til hamingju með frábæran árangur í vetur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.