Bæði norðanliðin nokkuð sátt þrátt fyrir töp
Leikið var í Lengjubikarnum í knattspyrnu í dag en fyrst voru það Stólastúlkur sem mættu liði Selfoss og síðan voru það kapparnir í Kormáki Hvöt sem tókust á við lið Hauka úr Hafnarfirði. Bæði norðanliðin urðu að sætta sig við naumt tap í hörkuleikjum.
Lið Tindastóls mætti Bestu deildar liði Selfoss í JÁVERK-höllinni á Selfossi. Markadrottningin Brenna Lovera kom liði heimastúlkna yfir strax á 12. mínútu og reyndist það eina mark leiksins. Feykir náði á Bryndísi Rut, fyrirliða Stólastúlkna, sem var nokkuð sátt við leikinn. „Það voru margir jákvæðir hlutir í þessum lei, höfum verið að lenda í smá brasi með að ná hópnum almennilega saman sökum covid / meiðsla / vinnu eða öðru en í dag vorum við með nokkuð heilt lið. Fengum á okkur eitt mark en heilt yfir var varnarleikurinn fínn. Vorum óheppnar með sóknarleikinn, boltinn vildi ekki inn en við fengum nokkur færi og það er líka jákvætt. Við sjáum árangur í okkar leik og erum því á réttri leið á undirbúningstímabilinu.“
Húnvetningar sprækir í Hafnarfirði
Í Skessunni í Hafnarfirði tóku Haukar á móti liði Kormáks/Hvatar sem fékk slæman skell í fyrstu umferðinni gegn liði Njarðvíkur. Í dag var kraftur í Húnvetningum og úr varð hörkuleikur. Heimamenn komust í 2-0 eftir 13. mínútna leik en Akil minnkaði muninn fyrir hlé. Ingvi Rafn jafnaði síðan leikinn í síðari hálfleik en Haukar gerðu sigurmarkið á 81. mínútu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.