Tvö verkefni fengu styrk frá Íþróttanefnd Rannís
Íþróttanefnd á vegum Rannís hefur ákveðið að úthluta rúmri 21 milljón til 71 verkefna fyrir árið 2025. Á Norðurlandi vestra fengu tvö félög úthlutað úr þessum sjóð og fengu bæði félög 200.000 króna styrk. Ungmennasamband Skagafjarðar sótti um fyrir inngildingu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Skagafirði og Skotfélagið Markviss til kaupa á raddstýrðu stjórntæki fyrir Trapp völl.
Nefndinni bárust alls 194 umsóknir að upphæð tæplega 230 m. kr. þar af voru 114 umsóknir um styrki til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana að upphæð rúmlega 157 m. kr. Styrkumsóknir um fræðslu- og útbreiðsluverkefni voru 54 að upphæð um 62,8 m. kr. og umsóknir vegna íþróttarannsókna voru 11 að upphæð rúmlega 30,5 m. kr. Hér má sjá frekari úthlutanir úr sjóðnum.
Til ráðstöfunar á fjárlögum 2025 eru rúmar 22 m. kr. En taka verður tillit til þess að kostnaður við rekstur íþróttanefndar og þóknun til Rannís vegna umsýslu sjóðsins er tekin af styrkfé sjóðsins. Íþróttanefnd hefur á fundum sínum fjallað um innkomnar umsóknir og leggur til í samræmi við reglur Íþróttasjóð um úthlutun að eftirtaldir 71 aðili hljóti styrkveitingar fyrir árið 2025 úr Íþróttasjóði. Alls er lagt til að 38 umsóknir verði styrktar, úr flokknum ,,Aðstaða“, 27 úr flokknum ,,Fræðsla og útbreiðsla“ og 6 úr flokknum ,,Rannsóknir“. Tillaga um heildarúthlutun fyrir árið 2025 er 21.150 milljónir kr.
Næsti umsóknarfrestur rennur út þann 1. október 2025 klukkan 15:00 og hér er hægt að lesa nánar um sjóðinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.