Þrjú fjós í byggingu og eitt á teikniborðinu

Hér er verið að reisa fjós í Flugumýrarhvammi í Blönduhlíðinni. „Fyrsta skóflustungan var tekin 15, maí,“ segir Þórunn Rögnvaldsdóttir bóndi en ábúendur vonast til að fjósið verði tekið í notkun næsta vor.   MYNd: ÞÓRUNN RÖGNVALDSDÓTTIR
Hér er verið að reisa fjós í Flugumýrarhvammi í Blönduhlíðinni. „Fyrsta skóflustungan var tekin 15, maí,“ segir Þórunn Rögnvaldsdóttir bóndi en ábúendur vonast til að fjósið verði tekið í notkun næsta vor. MYNd: ÞÓRUNN RÖGNVALDSDÓTTIR

Það hlýtur að teljast til tíðinda og ekki árlegur viðburður að byggingaverktakar í Skagafirði standi í ströngu við að byggja ekki eitt heldur þrjú fjós og það fjórða er á teikniborðinu. Fyrst ber að nefna 1000 m2 fjós á bænum Ytri Hofdölum í Viðvíkursveit, 843 m2 fjós í Flugumýrarhvammi í Blönduhlíð og að lokum 1100 m2 viðbygging við fjósið sem fyrir er á Gili í Skarðshreppi hinum forna.

Á Ytri Hofdölum eru það systkinin Þórdís og Þórarinn Már Halldórsbörn sem hafa tekið við búskapnum af foreldrum sínum og gamla fjósið komið á tíma. Staðan orðin þannig að ef halda ætti áfram mjólkurframleiðslu þyrfti að byggja nýtt fjós. Það sama er uppi á teningnum í Flugumýrarhvammi en þar eru það systurnar Þórunn og Jórunn Rögnvaldsdætur sem stunda búskapinn með föður sínum Rögnvaldi Ólafssyni. Tími er kominn á nýtt fjós þar sem lausaganga kúa er komin í reglugerð og hefðbundu gömlu básafjósin heyra brátt sögunni til. Gert er ráð fyrir einum mjaltaþjóni í þessum fjósum.

Á Ytri Hofdölum er það Herbert Hjálmarsson, maður Þórdísar og yfirsmiðurinn á bænum eins og Þórdís kemst sjálf að orði, sem byggir fjósið með samstarfsmönnum sínum en Friðrik Jónsson ehf. sem byggir fjósið í Flugumýrarhvammi sem og viðbygginguna á Gili. Gilsbúið ehf. eiga þau Vilborg Elísdóttir og Ómar Björn Jensson og starfa tengdasynir þeirra hjóna, þeir Jón Gunnar Vésteinsson og Hrólfur Þeyr Hlínarson, við búið. Þar er um viðbyggingu að ræða við núverandi fjós og er gert ráð fyrir 100 básum og gjafaaðstöðu í henni en Gilsbúið er með fjóra róbóta og ekki er búið að ákveða hvort einhver af þeim fara í nýbygginguna. Með framkvæmdunum er stefnt að því að bæta vinnuaðstöðuna og koma kúnum, sem eru á bænum Vík, í Gil og hafa með því alla mjólkurframleiðsluna á einum stað. Mun framleiðslan verða um það bil ein og hálf milljón lítra á ári.

Hafist var handa við byggingu þessara fjósa nú í vor og gera má ráð fyrir að nýju fjósin verði tekin í notkun á næsta ári. Viðtöl við bændurna sem Feykir ræddi við verða birt á næstu dögum. /gg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir