Það mikilvægasta er eftir – að samþykkja peninga í verkefnið
Göng úr Fljótum og yfir í Siglufjörð hafa verið mikið í umræðunni, og þá sérstaklega frá því í sumar, enda vegurinn um Almenninga og að Strákagöngum löngu orðinn óboðlegur og beinlínis hættulegur. Flestir virðast telja að ekki verði lengur við unað og nú síðast bárust fréttir þess efnis að innviðaráðherra hefði ákveðið að setja 30 milljónir í rannsóknarvinnu vegna nýrra Fljótaganga og stefnt að því að framkvæmdir geti hafist árið 2026. Feykir spurði Einar E. Einarsson, forseta sveitarstjórnar Skagafjarðar, hvort sveitarstjórnarfólk væri ánægt með viðbrögð ráðherra og þá væntanleg Fljótagöng.
„Já, þetta er jákvætt skref en við höfum í mörg ár pressað á stjórnvöld og þingmenn að koma þessum göngum fremst á lista jarðgangaáætlunar og þar með í framkvæmd,“ segir Einar og bætir við að um mikilvægi þess hafi líka verið samstaða meðal sveitarstjórnarfulltrúa og sveitarfélaga og beggja landshlutasamtaka sveitarfélaga á Norðurlandi.
„Það mikilvægasta er samt eftir en það er að taka ákvörðun um að framkvæmdir hefjist ekki seinna en á árinu 2026. Til að svo verði þarf umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og Alþingi í framhaldinu að samþykkja peninga í verkefnið og að verkið fari í gang á árinu 2026 og klárist þá á 3-4 árum eftir það, eða árið 2029-2030. Vegagerðin hefur sagt að þetta sé raunhæf tímalína fáist tilætluð fjármögnun frá ríkinu,“ segir Einar að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.