Stólastúlkur taka á móti liði Keflavíkur í dag
Síðasta umferðin í Bestu deild kvenna fer fram í dag og hefjast allir leikirnir kl. 14:00. Á Sauðárkróksvelli verður mikilvægur leikur í botnbaráttunni þar sem lið Tindastóls tekur á móti botnliði Keflavíkur. Nú þurfa stuðningsmenn Stólastúlkna að skella sér í regngallann og fjölmenna á völlinn og styðja stolt Norðurlands vestra í fótboltanum. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Lið Tindastóls hefur ekki náð jafnvægi í varnarleiknum eftir að Gwen Mummert hvarf á braut um mitt sumar. Stelpurnar hafa þó margoft sýnt að þær geta spilað fínan fótbolta en ekki náð í stigin sem í boði eru. Liðið er í áttunda sæti með 12 stig en Keflavík og Fylkir eru í fallsætunum sem stendur með níu stig. Fylkir á heimaleik gegn liði Þórs/KA.
Sigur Stólastúlkna í dag væri gott veganesti inn í úrslitakeppnina sem hefst strax um næstu helgi. Það eru spilaðar þrjár umferðir í neðri hlutanum og liðin taka þau stig með sér sem þau hafa unnið sér inn um sumarið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.