Stólastúlkur máttu sætta sig við enn eitt tapið
Stólastúlkur fengu sameinað lið Aþenu/Leiknis/UMFK í heimsókn í Síkið í kvöld í 1. deild kvenna. Eftir ágæta byrjun Tindastóls náðu gestirnir tökum á leiknum og um miðjan þriðja leikhluta höfðu þeir búið sér til dágott forskot sem heimastúlkur náðu aldrei að brúa þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir. Lokatölur 70-77.
Chloe og Emese gáfu tóninn í byrjun leiks og Tindastólsliðið komst í 10-2. Þristur frá Ingigerði kom muninum í tíu stig, 17-7, þegar tæpar sex mínútur voru liðnar af leiknum en þá brettu gestirnir upp ermarnar og gerðu næstu ellefu stig og komust yfir. Körfur frá Chloe og Emese sáu til þess að Stólastúlkur leiddu, 21-18, að loknum fyrsta leikhluta. Jafnt var á flestum tölum fyrstu mínútur annars leikhluta en gestirnir áttu smá sprett um miðjan leikhlutann og komust sex stigum yfir, 25-31. Emma Katrín og Chloe svöruðu að bragði en það voru gestirnir sem leiddu með fjórum stigum í hálfleik. Staðan 34-38.
Heimastúlkur þurftu því að halda vel á spilunum í síðari hálfleik en góður varnarleikur gestanna kom í veg fyrir það. Eftir tæplega fjögurra mínútna leik var munurinn orðinn tíu stig, 38-48, og hélst sá munur næstu mínútur en lið Tindastóls kláraði leikhlutann ágætlega og var enn í góðum séns að honum loknum. Þær höfðu náð að minnka muninn í þrjú stig, 51-54, og fengu færi til að minnka í eitt stig en Evu brást bogalistin og gestirnir bættu við. Staðan 51-56. Fjórði leikhluti þróaðist líkt og sá þriðji, gestirnir áttu góðan kafla fyrir miðan leikhluta og náðu mest 14 stiga forystu, 53-67. Chloe var drjúg á lokakaflanum en gestirnir áttu jafnan ás í erminni, létu boltann ganga vel í sókninni og fundu oftar en ekki opin færi. Munurinn reyndist of mikill til að heimastúlkur næðu að vinna hann upp og lokatölur sem fyrr segir 70-77.
Líkt og í síðustu leikjum þá dró Chloe Wanink vagninn fyrir Stólastúlkur. Hún gerði 40 stig í leiknum! Emese Vida var með 13 stig að þessu sinni og tíu fráköst. Eva Rún gerði níu stig og tók sjö fráköst, Fanney María og Ingigerður voru með þrjú stig hvor og Emma Katrín tvö. Í liði gestanna var Nerea Brajac með 23 stig, átta fráköst og sjö stoðsendingar en þrjár stúlkur til viðbótar voru með 15 stig eða meira. Tölur liðanna voru í raun mjög svipaðar, gestirnir settu niður sjö 3ja stiga skot en heimastúlkur fimm og má nánast segja að þar hafi munurinn legið. Það verður þó að segjast eins og er að gestirnir spiluðu betri vörn en Stólastúlkur í síðari hálfleiknum og boltinn gekk betur hjá þeim þannig að úrslitin verða að teljast sanngjörn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.