Staða fatlaðs fólks til skammar í sveitarfélaginu
Ég er svo hugsi eftir fund sem fór fram í gær, 4. maí, við frambjóðendur til sveitarstjórnarkosninga um stöðu fatlaðs fólks í Skagafirði og finn fyrir brennandi þörf til að tjá mig.
Frambjóðandi fyrir flokk sem hefur verið í meirihluta í sveitarstjórn viðurkenndi fúslega að hafa litla þekkingu á málaflokknum. Bætti við að fyrir fundinn hafi hann aflað sér þekkingar á heimasíðu Öryrkjabandalagsins og hjá öðrum félögum og komist að því að málaflokkurinn væri nánast jafn flókinn og landbúnaðarmálin?, sem í fyrsta lagi er hrein og klár lítillækkun fatlaðs fólks en sýnir samt svo skýrt hvar áherslan er lögð í þessu sveitarfélagi. Hvers vegna hefur flokkur í meirihluta sitjandi sveitarstjórnar ekki fulltrúa með þekkingu og eldmóð fyrir málefnum stærsta minnihlutahóps samfélagsins?
Fundargestir höfðu flestir brennandi þörf fyrir að ræða aðgengismál og hvað sveitarfélagið stendur illa í þeim efnum. Nefna fulltrúar að næst á dagskrá sé að ráðast í framkvæmdir við leikskólalóðina á Hólum sem er hvorki fötluðum börnum né öðrum börnum boðleg. Þessar framkvæmdir eru nú fyrst settar á laggirnar vegna fatlaðs barns sem stendur mér nærri og er núna á fjórða ári. Það hefur verið ljóst frá því að barnið fæddist að gera þurfi aðlögun á leikskólalóðinni og leikskólanum sjálfum - en nú fyrst þegar barnið er við það að fara upp á næsta skólastig er stefnt að því að ráðast í framkvæmdir?
Áðurnefndur frambjóðandi bendir á að þetta sé fyrsti liður í að bæta aðgengi fyrir þetta tiltekna barn, því verði svo að fylgja eftir þegar barnið færist upp um skólastig með viðeigandi aðlögunum.
Af hverju er alltaf lögð áhersla á þessa aðlögun? Af hverju er ekki lögð áhersla á algilda hönnun? Almenningsbyggingar eins og t.d. skólastofnanir eiga samkvæmt lögum að vera aðgengilegar öllum, óháð færni og fötlun!
Eins var lögð mikil áhersla á mönnunarvanda í þjónustu við fatlað fólk sem er gríðarlegt áhyggjuefni. Aðstandendur fatlaðra einstaklinga eru uggandi yfir því að þurfa að treysta íhlaupafólki fyrir umönnun þeirra eða að þurfa að leggja á sig aukna umönnunarbyrði. Slík umönnunarbyrði er gífurlega mikill áhættuþáttur fyrir andlega og líkamlega örmögnun aðstandenda og þá sérstaklega mæðra fatlaðra barna.
Svör frambjóðenda voru á þá leið að í Skagafirði sé lítið atvinnuleysi og laga þurfi þennan vanda með því að lokka fólk til þess að flytja í sveitarfélagið og fjölga um leið nýbyggingum til þess að hægt sé að hýsa allt þetta fólk sem verður að flytja hingað til þess að bjarga málunum. Guð forði þó foreldrum fatlaðra barna frá því að flytja í sveitarfélagið því hér verða ekki viðunandi leik- og grunnskólar fyrir fötluð börn fyrr en Bernharð Leó lýkur skólagöngu sinni - Mikil ábyrgð lögð á eitt barn verð ég að segja.
Þess má þar að auki til gamans geta að ég hef frá því í janúar reynt að finna viðeigandi starf í Skagafirði, verandi með sérþekkingu í málefnum fatlaðra sem iðjuþjálfi en mér hefur enn sem komið er bara tekist að finna sumarstarf - talandi um að reyna að lokka fólk í Skagafjörð.
Sonja Finnsdóttir
iðjuþjálfi frá og með júní 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.