Söðulsessan sem breyttist í mynd og brúðan hennar Sissu :: Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Í sparistofunni í Áshúsinu í Glaumbæ er útsaumuð mynd (BSk 1993:2) með blómamunstri á vegg. Myndin er eftir Kristínu Símonardóttur (1866-1956) frá Brimnesi. Upphaflega var myndin hluti af söðulsessu eins og konur notuðu til að smeygja undir sig í söðulinn, til að mýkja sætið. Kristín gaf hana vinkonu sinni Sigríði Pétursdóttur (1858-1930) í Utanverðunesi, þegar hún gifti sig 1880. Sú umsögn fylgdi myndinni að Kristín hefði byrjað á henni 1876 en það ártal er saumað í myndina. Þá var hún tíu ára gömul. Sagt er að hún hafi klárað verkið á fermingarári sínu. Hún hefur saumað myndina með mislöngu spori.

Kristín var fædd í Brimnesi. Móðir hennar var Sigurlaug dóttir Rannveigar og Þorkels á Svaðastöðum. Kristín nam hannyrðir hjá móður sinni á unga aldri og fór svo sem unglingur í vist til Sigurlaugar Gunnarsdóttur (1828-1905) í Ási í Hegranesi (sem stóð að byggingu Áshússins á sínum tíma). Þar kynntust Kristín og Sigríður í Utanverðunesi. Seinna fór Kristín til Reykjavíkur og hélt áfram að sinna hannyrðum. Þar kynnti hún sér ýmsar nýjungar og koma heim með prjónavél. Maður Kristínar var Hartmann Ásgrímsson (1874-1948).

Þau bjuggu í Kolkuósi þar sem þau ráku stórbú og verslun. Kristín var, eins og margar frænkur hennar, áhugasöm um nýjungar sem gátu aukið framleiðni og létt undir á heimilinu. Er ekki að efa að Kristín hafi átt sinn þátt í því að panta inn og selja hringprjónavélar þegar þær komu á markað. Lesa má um Kristínu í bók eftir Ingu Arnar, sem ber heitið Lífsins blómasystur: Hannyrðakonur af Svaðastaðaætt og kom út árið 2012. Í bókinni fjallar hún um handverk afkomenda Rannveigar á Svaðastöðum, í kvenlegg. Útgefandi bókarinnar er Byggðasafn Skagfirðinga.

Sigríður Hjálmarsdóttir (1918-2012) húsfreyja í Viðvík og víðar gaf safninu myndina um leið og hún gaf brúðu sem einnig má skoða í Áshúsi, (BSk 1993:3/1523). Sigríður eða Sissa eins og hún var alltaf kölluð bjó í Viðvík, á Sauðárkróki og víðar. Brúðan, sem er um 40 cm há, er einstaklega falleg og búningurinn vel unninn. Hann er saumaður um 1970 af Sigríði Jónsdóttur systurdóttur Sissu. Sigríður var hannyrðakennari og mikil saumakona. Um skeið var hún þekkt sem konan sem saumaði prestakragana.

Búningurinn samanstendur af svörtum prjónuðum hnésokkum, svörtum hvítbrydduðum spariskóm úr sauðskinni og svörtu pilsi úr glansandi efni. Svuntan er köflótt, blá, svört og rauð úr bómullarefni, hneppt að aftan með skrautlegum hnappi. Treyjan er svört úr „jersey“-efni, hneppt með litlum tölum. Hyrnan er prjónuð með garðaprjóni úr grárri og hvítri ull. Skotthúfan er úr ullarefni og skúfurinn úr glansandi svörtu bómullargarni. Hólkurinn er afar lítill um 2,2 cm langur og miklu eldri en búningurinn. Hann er úr silfri og var áður í eigu Sigríðar Guðvarðardóttur, Móafelli í Stíflu (d. 1955).

 

Áshúsið opnaði eftir endurbætur þann 20. maí.

Texti er eftir Sigríði Sigurðardóttur og er fengin af heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga, www.glaumbaer.is/ /is/syningar/merkisgripir.

Áður birst í 16. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir