Sex stúlkur úr Tindastóli í Norðurlandsúrvalinu
Tindastóll á sex fulltrúa í 18 manna lokahópi Norðurlandsúrvals stúlkna í knattspyrnu. Liðið er skipað stúlkum sem hafa fæðst árið 2007 eða 2008. Úrvalið fer til Danmerkur og spilar þar tvo leiki við FC Nordsjælland og Brøndby IF dagana 26. febrúar - 2. mars.
Hópurinn samanstendur af tíu stelpum úr Þór/KA, tvær koma frá Völsungi á Húsavík og sex frá liði Tindastóls en þar af eru tvær frá Skagaströnd og ein frá Blönduósi ef Feyki skjátlast ekki. „Þetta eru sannarlega frábærar fréttir fyrir okkur að eiga 1/3 af þeim hóp sem fer,“ segir Tóti yfirþjálfari yngra flokka Tindastóls í tilkynningu á Facebook-síðu stuðningsmanna knattspyrnudeildar Tindastóls.
Í gær spiluðu stelpurnar við 2.fl Þór/KA og sigruðu 5-0. „Okkar stelpur stóðu sig gríðarlega vel og eru lykilmenn í þessum sterka hóp,“ segir Tóti. Allar hafa stelpurnar spilað með sameinuðum liðum Tindastóls/Hvatar/Kormáks í yngri flokkum en hafa fengið að spreyta sig með meistaraflokki Tindastóls nú í vetur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.