Segist ekki komast til baka í nútímann
Dreifarinn fékk á dögunum upphringingu frá Sveini Guðna Zakharíassyni (61) sem hefur nánast allt sitt líf unnið við að pilla rækjur og það víðsvegar um landið. -Að pilla gefur lífinu gildi, væni minn, en það er nú ekki þess vegna sem ég hringi, segir Sveinn Guðni og heldur áfram.
-Finnst þér sambandið ekki slæmt í símanum? Finnst þér ekki eins og ég sé langt í burtu.
Jú, þegar þú segir það þá er ég ekki frá því að svo sé. -Já, ég veit það, þetta er nefnilega svo skrítið.
Hvað heldurðu að sé að? -Ég veit það ekki. Þetta er búið að vera svona í svolítinn tíma, kannski mánuð, eitthvað svoleiðis. Ég held hérna skal ég þér segja að þetta sé Símanum að kenna.
Hvernig síma ertu með? -Ha? Nei, það er ekki símtækið sjálft sem ég er að tala um.
Núnú, fyrirtækið þá? -Já, einmitt.
Hvernig færðu það út? -Ég skal segja þér það. Þeir hafa verið að auglýsa tímavél Símans, þú hefur tekið eftir því, já? Jæja, ég prufaði þetta fyrir svona mánuði, hafði misst af Útsvari og langaði til að horfa á þau Sigmar og Þóru, þau eru svo ansi hugguleg og þægileg, gott sjónvarpsfólk. Nú svo ég notaði tímavél Símans og fór aftur um sólarhring.
Og var það ekki í lagi? -Jú, þátturinn var ágætur en ég er hræddur um að ég sé fastur í tímavélinni. Ég kemst ekki til baka í nútímann. Það var aldrei varað við þessu í auglýsingunni.
Og hvernig lýsir þetta sér? -Ja það er til dæmis þetta símasamband. Það er eins og ég sé bara á einhverri annarri tíðni en aðrir, eins og ég sé langt langt í burtu. Að ég sé að hringju úr fortíðinni í framtíðina, skilurðu?
Nei, ég get nú ekki sagt að ég botni neitt í þessu Sveinn Guðni. -Nei, það er nefnilega það vinur. Þetta segir konan mín líka en ég treysti henni eiginlega ekki eftir að hún faldi fjarstýringuna fyrir mér. Hún segist vera búna að fá sig fullsadda á þessum..., ja hún kallar þetta vitleysigang, ...og já, móðursýki. Ég held, skal ég segja þér, að hún sé bara alveg að bilast blessunin hún Sigríður mín.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.