Rabb-a-babb 225: Kristrún Frosta

Kristrún Frostadóttir rekur ættir sínar í Lýtingsstaðahrepp. AÐSEND MYND
Kristrún Frostadóttir rekur ættir sínar í Lýtingsstaðahrepp. AÐSEND MYND

Það eru örugglega ekkert allir sem vita að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands, rekur ættir sínar í Lýtingsstaðahreppinn. Það var því upplagt að plata hana í að svara Rabb-a-babbi. Kristrún er fædd í maí 1988 en þá var Bítlalagið With a Little Help From My Friends  í flutningi Wet Wet Wet á toppi breska vinsældalistans og Perfect með Fairground Attraction í öðru sæti.

Kristrún, sem er með heimilisfang í 108 Reykjavík, er gift Einari Bergi Ingvarssyni og eiga þau tvær frábærar stelpur, Maríu Herdísi 5 ára og Ragnhildi Steinunni 1 árs. „Pabbi er Frosti Fífill Jóhannsson, fæddur og uppalinn í Lýtingsstaðahreppnum og er þjóðfræðingur, starfaði lengst af í safnageiranum. Mamma er Steinunn G H Jónsdóttir, fædd og uppalin í Reykjavík, heimilislæknir, var á heilsugæslunni í Hlíðunum og svo í kjölfarið, 25 ár eða svo, á bráðamóttökunni í Fossvogi. Kristrún lærði hagfræði og alþjóðafræði hér heima og í Bandaríkjunum, en starfaði mest við efnahagsgreiningar í bönkum hér heima og erlendis áður en hún stökk í stjórnmálin.

Aðspurð um hvað sé í deiglunni segir hún: „Í vinnunni er það útspil okkar í Samfylkingunni um atvinnu- og samgöngumál sem var nýlega kynnt á flokksstjórnar-fundi okkar á Laugarbakka 20. apríl. Erum búin að ferðast um landið síðustu vikur, heimsóttum 180 fyrirtæki og héldum hátt í 30 opna fundi og birtum núna áherslur okkar meðal annars í orku- og auðlindamálum. Í persónulega lífinu var ég að halda upp á fimm ára afmæli eldri dótturinnar sem hefur tekið yfir undanfarnar vikur enda stór viðburður hjá minni konu.“

Hvernig nemandi varstu? Ég var mjög metnaðarfull og tók náminu líklega of alvarlega á köflum. En ég stend enn með því að maður á ekki að gera neitt með hangandi hendi. Það er lærdómur í öllu, sama hvað kemur út úr því. Það hefur reynst mér vel.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Hár-greiðslan sem systir mín gerði í mig og að ég var höfðinu hærri en flestir í árganginum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Misspennandi hlutir eftir tímabilum. Eitt sinn verkfræðingur, annað sinni poppstjarna og lagahöfundur.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég var mikið að safna hlutum á tímabili. Leikföngum úr morgunkornskössum sem mátti alls ekki henda og litlum böngsum. Hef síðan losað mig við söfnunaráráttuna en eldri stelpan mín virðist hafa erft þetta.

Hvert er uppáhalds leikfangið þitt í dag? Nýja pönnuköku-pannan, er að verða býsna góð í pönnsunum.

Besti ilmurinn? Nýfædd börn – og slegið gras.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Í Þjóðleikhúsinu á leiksýningu í byrjun árs 2009.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Coldplay, Celine Dion, Robyn, Alicia Keys, Maroon 5.

Hvernig slakarðu á? Uppáhalds staðurinn minn heima er sófinn inni í stofu, liggja þar í ró og næði – sjaldgæft, en finnst gott að vera bara í þögninni. Sleppa útvarpinu í bílnum þegar ég er ein getur líka verið gott.

Hvaða seríu varstu síðast að hámhorfa? Var að klára The Gentlemen á Netflix með mann-inum mínum. Skemmtilegir þættir.

Hvað bíómynd var í mestu uppáhaldi þegar þú varst unglingur? Þegar ég var barn dýrkaði ég myndina um Tinu Turner, What‘s Love Got To Do With It. Þegar ég var unglingur snerist það meira um hverjum ég var skotin í á hverjum tíma – Pearl Harbor myndin var í uppáhaldi aðallega út af Josh Hartnett. Veit ekki um gæði þeirrar myndar – en Tinu myndin er enn frábær.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Búa Steini Kárasyni, stórhlaupara.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Skipuleggja matinn fyrir vikuna.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Er mjög stolt af pönnukökunum mínum, það er nýtilkominn hæfileiki. Er samt frekar hæg í því. Átti ágætis leik í fimm ára afmælinu um daginn; sítrónuköku og marengstertu. Er góð að elda fisk.

Hættulegasta helgarnammið? Maarud snakk með chili og brenndu smjöri.

Hvernig er eggið best? Hrært með fetaosti og spínati.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óþolinmæði. Og í auknum mæli eftir að ég eign-aðist börn og varð formaður: óstundvísi.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Dómharka.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Á misjöfnu þrífast börnin best.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Borðandi hafragraut í morgunmat á leikskólanum Mýri.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Taylor Swift og fá að taka þátt í lagasmíðum með teyminu hennar. Örugglega magnað að taka þátt í tónleikaferðalaginu hennar, en líklega of mikið fyrir einn dag.

Hver er uppáhalds bókin þín? Allar Einar Áskells bækurnar – sérstaklega, Þú átt gott, Einar Áskell. Svo góðar bækur fyrir börn, og í raun líka fullorðna sem þurfa stundum að stíga til baka og sjá skóginn fyrir trjánum eftir langan dag. Mik-ið lesið á mínu heimili þessa dagana. Svo Íslandsklukkan fyrir lengra komna.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „80/20 reglan“ – ekki eyða tíma í að rífast um 20%, heldur einbeitum okkur að 80% - stóru hlutunum, reynum að leysa stóru málin, ekki festast í litlu hlutunum. Og „Þetta verður góð saga“, þegar ég lendi í einhverju basli og hugsa til þess að einn daginn geti ég hlegið að því.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Bruce Springsteen, Taylor Swift og Barack Obama. Gott partý, mikið sungið.


Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég væri til í aðra kvöldstund með tengdamóður minni sem veiktist og féll frá alltof snemma. Svo færi ég aftur til námsáranna í Bandaríkjunum og færi aðeins meira út á lífið með manninum mínum, hefðum átt að gera meira af því og minna af því að læra og undirbúa starfsviðtöl! En maður getur ekki gert allt á sama tíma.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Ég lifi ekki mínu lífi út frá því að hún verði skrifuð, eins ótrúlegt og það hljómar miðað við núverandi starf. En Áfram gakk gæti verið titillinn á einhverju sem birtist svo kannski aldrei.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir