„Okkar tími í efstu deild verður lengi í minnum hafður“
Feykir sagði frá því fyrr í dag að Guðni Þór Einarsson, annar þjálfara kvennaliðs Tindastóls í fótboltanum, hefur nú sagt skilið við liðið sitt enda búinn að flytja sig um set suður á mölina. Óhætt er að fullyrða að Guðni hafi staðið sig með mikilli prýði og ávallt verið Tindastóli til sóma líkt og liðið sem hann þjálfaði. Í tilefni af þessum tímamótum sendi Feykir kappanum nokkrar spurningar.
„Ég fékk fyrst smjörþefinn af þjálfun í Íþróttaskólanum hjá Ingvari Magnússyni árið 2003-2004, þá 14 ára gamall, og aðstoðaði við þjálfun yngstu flokka félagsins,“ segir Guðni þegar hann er spurður hvernig það kom til að hann fór að þjálfa. „Þjálfarferillinn sem slíkur hófst svo í byrjun 2016 en sumarið áður hafði ég lent í slysi í knattspyrnuleik sem hélt mér frá því að spila íþróttina sem varð til þess að í stað þess að spila þá langaði mig að reyna fyrir mér í þjálfun og tók við 4. flokki kvenna,“ segir Guðni. Haustið 2017 var hann svo ráðinn sem aðstoðarþjálfari mfl. kvenna og frá 2018 hefur hann verið aðalþjálfari liðsins í teymi með Jóni Stefáni Jónssyni og í sumar með Óskari Smára Haraldssyni frá Brautarholti.
Jónsi kastaði einmitt kveðju á Guðna í morgun þegar Feykir hafði samband við hann. „Ég vil þakka mínum kæra vini honum Guðna fyrir frábært og óeigingjarnt starf með mér og í þágu Tindastóls. Betri félagsmann er vart hægt að hugsa sér og er missir Stólanna mikill þó að sjálfsögðu komi alltaf maður í manns stað. Spennandi tímar eru framundan hjá Guðna og ég hlakka mikið til að fylgjast með honum á nýjum vettvangi. Mig langar einnig að nota tækifærið og óska mínum fyrrum lærimeyjum í Tindastól til hamingju með frábært sumar sem þær geta verið stoltar af þrátt fyrir fall. Ég hef fulla trú á að þær komi enn sterkari til baka og haldi áfram þessu ævintýri á komandi árum,“ sagði Jónsi.
En aftur til Guðna. Hvað er eftirminnilegast frá þessum tíma með Stólastúlkum? „Þegar við tryggðum okkur sæti í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins og okkar tími í efstu deild verður lengi í minnum hafður. Eftir sumarið stendur ómetanleg reynsla fyrir alla sem koma að liðinu. Það höfðu ekki margir trú á okkur fyrir tímabilið og okkur spáð miklum hrakförum en þrátt fyrir þá spádóma þó höfðum við mikla trú á að við gætum haldið sæti okkar í deildinni. Við teljum okkur hafa sannað að liðið eigi heima í efstu deild og það var frábært að sjá okkar uppöldu heimastelpur sanna sig sem góðir eftstudeildarleikmenn. Fyrir félagið í heild ætti þetta að vera góð hvatning til að halda áfram þessari góðri uppbyggingu sem átt hefur stað síðustu ár. Það er góður efniviður í yngri flokkum félagsins og framtíðin getur verið mjög björt ef haldið er rétt á spilunum.“
Umgjörð liðsins hefur verið til fyrirmyndar
Hver telur þú að hafi verið mikilvægasti þátturinn í þessu óvænta ævintýri Stólastúlkna, hvers vegna náðist þessi árangur? „Það þarf samspil margra þátta til að svona ævintýri verði að veruleika og undirbúningurinn tók mörg ár að þróast með góðu yngri flokka starfi í gengum árin. Ákveðin hugarfarsbreyting átti sér stað og unnið var markvisst að því að skapa gott umhverfi til að halda áfram uppbyggingu liðsins.“ Guðni segir að uppbygging leikmannahópsins hafiverið annar mikilvægur þáttur. „Í bland við unga efnilega leikmenn eru reynsluboltar sem hafa spilað saman í mörg á og svo fengum við frábæra styrkingu í erlendum leikmönnunum sem hafa fylgt okkur síðustu ár sem hafa gefið mikið af sér til allra leikmanna liðsins. Svo hefur umgjörð liðsins verið til fyrirmyndar og hefur öflugt kvennráð starfað í kringum liðið undir forystu Helgu Eyjólfs sem hefur unnið ómetanlegt starf fyrir félagið.“
Hvað ertu ánægðastur með eftir tímann með Stólastúlkum? „Það er svo margt! Í fyrsta lagi er ég ótrúlega stoltur af þessari uppbyggingu sem hefur átt sér stað í kvennaboltanum á Króknum og tíminn hefur verið ævintýri líkastur. Ár frá ári hefur umgjörðin og stemningin í kringum liðið aukist. Þrátt fyrir að markmiðið hafi ekki náðst, að halda sér í efstu deild, hefur liðið alla burði til að stefna á toppbaráttuna og endurtaka leikinn á ný og koma sér aftur í deild þeirra bestu.“
Hver er stefnan hjá þér, er það bara skrifstofustóllinn eða verðurðu mættur á hliðarlínuna á öðrum velli? „Nú á dögunum fluttum við suður í Kópavoginn og ætla ég að setjast á skólabekk eftir margra ára fjarveru, fer að læra íþróttafræði við Háskólann í Reykjavik og samhliða því ætla ég taka aukin þjálfararéttindi hjá KSÍ. Mig langar mikið að halda áfram að þróa mig og bæta sem þjálfari og jú, það mun svo koma í ljós á næstu dögum hvert næsta verkefni mitt í þjálfun verður,“ segir Guðni og bætir við í lokin að eftir 25 ár samfleytt sem leikmaður, þjálfari, foreldri og fyrst og fremst stuðningsmaður Tindastóls sé komið að leiðarlokum. „Ég vil þakka ykkur leikmönnum og meðþjálfurum síðustu ára kærlega fyrir frábæra tíma og ég óska ykkur alls hins besta á komandi tímum. Ég vil þakka þeim stjórnarmönnum sem hafa sýnt mér traust fyrir liðinu, kvennaráði fyrir frábært samstarf, ykkur Feykismönnum fyrir frábæra umfjöllun um íþróttastarfið á Króknum og ykkur stuðningsmönnum fyrir frábæran stuðning síðustu ár. Og síðast en ekki síst þakka ég eiginkonunni, Guðrúnu Jenný, sem hefur látið allt dæmið ganga upp. Áfram Tindastóll!“
Ekki er að efa að Tindastólsfólk á eftir að sakna þessa öðlings sem Guðni er og Feykir vill nota tækifærið og þakka honum frábært samstarf í gegnum árin. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá tíma Guðna með lið Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.