Miklar breytingar hafa átt sér stað á Barnabóli á Skagaströnd

Á Barnabóli á Skagaströnd eru 36 börn á tveimur svonefndum kjörnum, yngri kjarna og eldri kjarna. Mynd/Barnaból.
Á Barnabóli á Skagaströnd eru 36 börn á tveimur svonefndum kjörnum, yngri kjarna og eldri kjarna. Mynd/Barnaból.

Leikskólinn Barnaból á Skagaströnd hefur verið starfandi frá árinu 1977. Árið 2014 tók Hjallastefnan ehf. yfir rekstur skólans. „Innleiðingin gekk eins og í sögu og tók starfsfólkið, sem og foreldrar og börn, stefnunni og nýjum áherslum í starfinu með opnum örmum og gleði,“ sagði María Ösp Ómarsdóttir í samtali við Feyki. María er meðstýra og daglegur stjórnandi skólans og vinnur hún náið með Þorgerði Önnu Arnardóttur skólastýru, sem sá um að innleiða Hjallastefnuna á Barnabóli. 

Nú hefur Barnaból verið Hjallastefnuleikskóli í rúmt ár og miklar breytingar hafa verið gerðar bæði á húsakosti og starfsháttum. „Húsnæði leikskólans var tekið í gegn, málað að innan og leikfangalager fjarlægður. Einnig höfum við tekið niður rólurnar sem voru á útisvæðinu okkar og í staðinn fengum við risavaxinn rekaviðardrumb sem gaman er að klifra í,“ útskýrir María um þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað undanfarið ár. 

„Umhverfið okkar er einfalt og allir hlutir hafa tilgang í hinu daglega starfi. Sjónmengun er í algeru lágmarki og veitir það kyrrð og ró í umhverfinu sem er börnum mikilvægt, og þá sérstaklega börnum sem glíma við einhverskonar raskanir. Allt er kjarnað og merkt og við nýtum allan okkar efnivið til hins ýtrasta, enginn óþarfi hér,“ útskýrir María og brosir.

„Við nýtum ávallt leikefni eða opinn-efnivið þar sem börnin hafa frjálsar hendur í sköpun og ímyndunaraflið leikur lausum hala. Börn eiga flest talsvert af dóti heima hjá sér og með því að bjóða upp á opinn-efnivið þá bjóðum við upp á aðra leikreynslu en heimilin, enda er hlutverk leikskólans að vera viðbót við heimili barnanna. Svo ef þið komið í heimsókn til okkar á Barnaból þá munuð þið ekki sjá neitt hefðbundið „dót“ heldur fjölnota trékubba, dýr, risavaxna púða og dýnur og allskyns föndurefni,“ segir María og kímir.

Nánari umfjöllun um Barnaból má lesa í Feyki vikunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir