Mikil gróska í námskeiðahaldi Farskólans.

Ekki virðast útlendingarnir vera að yfirgefa Norðurland vestra þrátt fyrir "ástandið" þar sem reiknað var með að þeir hyrfu flestir til síns heima, því nú eru 5 íslenskunámskeið nýhafin, Ísl 2 á Hvammstanga, Ísl 1 og 2 á Blönduósi og tveir hópar í Ísl 2 á Sauðárkróki.

Ljósmyndanámskeið eru einnig vinsæl um þessar mundir. Fyrir áramót var námskeið fyrir byrjendur í stafrænni ljósmyndun og eru nú hafin ný námskeið bæði á Blönduósi og Sauðárkróki. Jafnframt hófst námskeið í Photoshop þar um sl. helgi. Kennari á öllum ljósmyndanámskeiðunum er Pétur Ingi Björnsson og eru tæplega 40 nemendur á þessum námskeiðum.

Í lok mars lýkur Grunnmenntaskólanum á Hofsósi, en hann hefur verið starfandi í allan vetur. Þar hefur öflugur 10 manna hópur verið við nám 3 kvöld í viku frá kl. 18 - 22.

Námskeiðinu Skref til sjálfshjálpar í lestri og ritun lauk á Sauðárkróki nýlega. Það er framhaldsnámskeið fyrir þá nemendur sem sóttu námskeiðið Aftur í nám á vorönn 2008 og er öflugur stuðningur fyrir þá sem eru að takast á við lestrar- og skriftarörðugleika.

Grunnmenntaskólinn tók til starfa á Hvammstanga 24. febrúar sl. Þar eru nú afar áhugasamir námsmenn og var byrjað með kennslu í m.a. íslensku, sjálfsstyrkingu, námstækni og tölvum. Umsjónarmaður skólans er Laura Ann Howser.
Grunnmenntaskólinn er 300 kest nám og kennt verður á vor- og haustönn 2009. Námið er styrkt af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og jafnframt kennt skv. námskrá Fræðslumiðstöðvarinnar.
/Farskólinn.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir