Meistarabragur á meisturum Vals

Murr í gjörgæslu við miðlínu. Það var augljóst að hún átti ekki að fá pláss til að snúa með boltann í dag. MYND: ÓAB
Murr í gjörgæslu við miðlínu. Það var augljóst að hún átti ekki að fá pláss til að snúa með boltann í dag. MYND: ÓAB

Lið Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu mætti á Sauðárkróksvöll í dag og spilaði við lið Tindastóls í Bestu deildinni. Það væri synd að segja að Stólastúlkur hafi nokkurn tíma stigið dans við lið Vals á jafnréttisgrundvelli en frammistaðan í dag var í raun bísna góð þrátt fyrir 0-3 tap. Lið Vals vann verðskuldað en heimaliðið gaf hvergi eftir og er örugglega ósátt við mörkin sem það fékk á sig, þau virtust flest frekar ódýr.

Það voru gestirnir sem höfðu undirtökin í fyrri hálfleik en lengstum án þess að skapa sér góð færi. Lið Tindastóls varðist skynsamlega og reyndi að halda boltanum og sækja upp kantana en meistararnir voru yfirleitt fljótir að vinna boltann. Ísinn var hins vegar brotinn á 37. mínútu þegar Amanda Andradóttir renndi boltanum í fjær hornið eftir smá klafs inni á vítateignum. Markið sló heimastúlkur út af laginu því annað mark fylgdi í kjölfarið þegar Anna Sif Ásgrímsdóttir skallaði hornspyrnu af fjærstöng óverjandi í markið.

Í síðari hálfleik færðu Stólastúlkur sig upp á skaftið og náðu betra valdi á boltanum og leiknum. Nú voru það Íslandsmeistararnir sem þurftu að verjast, þó ekki væri það nú nauðvörn, og lið Tindastóls uppskar nokkrar hornspyrnur og komst í álitlegar stöður en lið Vals var einbeitt og varði mark sitt af kostgæfni. Rothöggið kom síðan á 71. mínútu þegar lið Vals sótti eldsnöggt að marki Tindastóls og frábær stungusending bjó til mark fyrir Ásdísi Karen Halldórsdóttur sem kláraði færið með glæsibrag. Fátt markvert gerðist eftir þetta en gestirnir nær því að bæta við mörkum en lið Tindastóls að klóra í bakkann.

Það er áhyggjuefni að sjá að þó bekkur Stólanna sé fullskipaður þá var aðeins einn leikmaður með alvöru reynslu þar á meðal, Hugrún Páls, og hún kom inn fyrir Aldísi Maríu í hálfleik. Þrjár af sjö stúlkum sem skipa bekkinn eru í 3. flokki. Næstu tvær stúlkur inn á völlinn voru Elísa Bríet og Birgitta, 15 ára frá Skagaströnd, og það verður ekki tekið af þeim að þær komu fullar sjálfstrausts til leiks og stóðu fyrir sínu. Liðið má þó ekki við neinum áföllum nú á lokakaflanum en ein umferð er eftir í deildarkeppninni og síðan tekur við þriggja umferða úrslitakeppni þar sem ræðst hvaða lið falla.

Frammistaðan var þó uppörvandi og baráttuviljinn og fengu stelpurnar gott klapp frá stuðningsmönnum í leikslok. Liðið fór niður um eitt sæti í dag, situr nú í áttunda sæti með 18 stig þar sem ÍBV gerði jafntefli og er með hagastæðara markahlutfall. Þá vann Keflavík góðan sigur á heillum horfnu liði Þróttara og eru því aðeins einu stigi á eftir liðum ÍBV og Tindastóls fyrir lokaumferðina. Selfoss situr neðst með 11 stig og þarf á kraftaverki að halda til að bjarga sér frá falli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir