Magnaður endurkomusigur Stólanna í Smáranum
Það voru alls konar ævintýri í heimi íþróttanna þessa helgina. Í Smáranum í Kópavogi tóku Blikar á móti liði Tindastóls í Subway-deildinni í körfubolta og þar voru sviptingar. Heimamenn leiddu með 15 stigum í hálfleik og voru 21 stigi yfir þegar 16 mínútur voru til leiksloka. Þá tók Pavel leikhlé og kannski sagði hann liðinu sínu að vinna leikinn eða eitthvað annað en það var nú bara það sem gerðist. Á örskotsstundu voru Stólarnir komnir á fullu gasi inn í leikinn og fjórum mínútum síðar var nánast orðið klárt mál hvort liðið tæki stigin með sér heim. Lokatölur í hressilegum leik voru 94-100 fyrir Tindastól.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en Blikar sigu fram úr upp úr miðjum fyrsta leikhluta. Eins og vænta mátti í leik gegn Kópavogspiltum var hraðinn mikill og mikið skorað en sömuleiðis var mikið um tapaða bolta og þar voru nú gestirnir sem voru einstaklega gjafmildir. Staðan var 32-26 þegar annar leikhluti hófst og Stólarnir fóru ágætlega af stað. Keyshawn minnkaði muninn í eitt stig með þristi, 32-31, en þá kom 15-0 kafli hjá Blikum á þremur og hálfri mínútu. Arnar og Key skelltu þá í tvo þrista og löguðu stöðuna en heimamenn kláruðu hálfleikinn betur og leiddu, 56-41, í hálfleik.
Enn á ný komu Stólarnir öflugir til leiks og voru snöggir að minnka muninn í tíu stig, 56-46, en Blikar svöruðu með 13-2 syrpu þar sem Stólarnir gáfu boltann ítrekað frá sér. Pavel fannst nóg komið og tók leikhlé, enda munaði þegar þarna var komið sögu 21 stigi á liðunum, staðan 69-48, og útlit fyrir háðulega útreið Tindastóls. Eitthvað heilnæmt og gott hefur hrokkið af vörum þjálfarans því Stólarnir mættu endurnærðir til leiks á ný. Sex mínútum síðar voru Stólarnir komnir tveimur stigum yfir, 75-77, eftir þrist frá Arnari. Jú, 29-6 kafli hjá Stólunum staðreynd. Heimamenn náðu að koma sér yfir fyrir lok þriðja leikhluta og staðan 78-77.
Körfur frá Taiwo og Arnari komu Stólunum í bílstjórasætið og þrátt fyrir að leikurinn væri jafn og spennandi út síðasta fjórðunginn þá voru Stólarnir einhvernveginn alltaf líklegri aðilinn. Ekki síst fyrir þá sök að Davis og Arnar voru farnir að setja þrista og Stólarnir voru líklegir um allan völl.
Stólarnir komnir með krumlurnar á fimmta sætið
Með sigrinum náðu Stólarnir enn betra tangarhaldi á fimmta sæti deildarinnar, eru með 20 stig og eiga nú fjögur stig á bæði Grindavík og Breiðablik og unnið leikina gegn þessum liðum. Í kvöld var Keyshawn stigahæstur með 28 stig og sjö stoðsendingar og sá um að draga vagninn í fyrri hálfleik. Þá var Arnar með 20 stig og sex stoðsendingar, Davis Geks hefur komið vel inn í leik liðsins og hann skilaði 18 stigum og þar af fimm þristum, Drungilas var með 17 stig og sex fráköst, Taiwo tíu stig og níu fráköst en frákastahæstur var Pétur með 10 stykki og var að auki með níu stoðsendingar.
Everage Richardson var stigahæstur Blika með 23 stig, Smith var með 20 og Julio Calver 18 stig. Alls tóku liðin 72 3ja stiga skot, Blikar settu átta af 40 en Stólarnir 13 af 32. Þá voru Stólarnir með 32 stoðsendingar en Blikar níu og segir kannski svolítið um ólíkan leikstíl liðanna.
Næsti leikur Tindastóls er á fimmtudaginn en þá kemur lið Hauka í heimsókn en liðin hafa eldað grátt silfur saman í vetur. Það væru örugglega margir Tindastólsmenn tilbúnir að gefa mikið fyrir sigur í þeim leik en Haukar hafa spilað frábærlega í vetur og það verður verðugt verkefni fyrir Stólana að tækla þá í Síkinu. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.