Lið Tindastóls jafnaði metin með sigri liðsheildarinnar
Lið Tindastóls og Aþenu mættust í annað sinn í einvígi sínu um sæti í Subway-deildinni í Síkinu í kvöld. Lið Aþenu fór illa með haltrandi Stólastúlkur í fyrsta leik sem var aðeins spennandi fyrstu mínúturnar. Það var annað uppi á teningnum í kvöld því leikurinn var æsispennandi en að þessu sinni var það lið Tindastóls sem leiddi lungann af leiknum. Gestirnir voru aðeins yfir í 20 sekúndur en voru annars í stöðugum eltingaleik við baráttuglatt lið Tindastóls. Það fór svo að taugar heimastúlkna héldu og sigur hafðist, lokatölur 67-64 og staðan í einvíginu 1-1.
Líkt og í fyrsta leiknum byrjaði lið Tindastóls betur í kvöld, komust í 7-0 og 12-5 en lið Aþenu er skeinuhætt og þær minnkuðu muninn í þrjú stig fyrir lok fyrsta leikhluta. Staðan 16-13. Tvívegis náðu Stólastúlkur átta stiga forystu á fyrstu mínútum annars leikhluta en þremur stigum munaði þegar leikhlutinn var hálfnaður, staðan 27-24 eftir þrist frá Martin. Fimm stig í röð frá Klöru Sólveigu komu Stólastúlkum aftur vel fyrir í bílstjórasætinu. Kannski leið þeim of vel undir stýri því gestirnir þrjóskuðust enn og aftur við og minnkuðu muninn í eitt stig en staðan í hálfleik 38-35.
Ef einhver átti von á afslöppun og tíma fyrir smá notalegheit í síðari hálfleik þá var hann á röngum stað. Klara gerði fyrstu körfu hálfleiksins en gestirnir svöruðu vel og þegar þriðji leikhluti var nánast hálfnaður komst lið Aþenu yfir, 42-43. Emese kvittaði fyrir Stólastúlkur með fjórum stigum og eftir það varð munurinn aldrei meiri en fimm stig – nema þegar mínúta var eftir. Staðan var 50-50 að loknum þriðja leikhluta og í þeim fjórða var munurinn yfirleitt eitt til fimm stig, heimastúlkum í hag. Eftir að Wolfram minnkaði muninn í eitt stig þegar tvær mínútur voru eftir, 60-59, komu körfur frá Ifu og Andriönu og staðan 65-59 þegar 55 sekúndur voru eftir. Þegar níu sekúndur voru til leiksloka hafði Aþena minnkað muninn í eitt stig. Í lokasókn Tindastóls var brotið á Aníku sem var í gamla Keyshawn-gírnum og setti bæði skotin sín ísköld niður. Lið Aþenu gat ekki nýtt sér þær fjórar sekúndur sem eftir lifðu og Stólastúlkur fögnuðu frábærum sigri.
Hefðum getað skilið á milli liðanna fyrr í leiknum
Fjórir leikmenn Tindastóls gerðu tíu eða fleiri stig sem er gott mál. Emese Vida hin serbneska gerði 18 stig og hirti ellefu fráköst, Ifu var með 16 stig, Andriana 14 og Klara Sólveig 10. Hjá gestunum voru Martin og Kubrzeniecka með 14 stig hvor og Zieniewska 13. Gestirnir gerðu níu 3ja stiga körfur gegn fjórum heimaliðsins, liðin tóku álíka mörg fráköst en lið Tindastóls skoraði grimmt í teignum.
„Ég er auðvitað mjög ánægður með leikinn í dag, frábær stemning í Síkinu og stelpurnar klárar frá fyrstu mínútu, bara eins og í fyrri leiknum nema að núna fór boltinn ofan í. Það hefur mikið að segja,“ sagði Helgi Margeirs þjálfari að leik loknum. „Stelpurnar eru að leggja sig allar fram, hvort sem það er inni á parketinu eða á bekknum. Liðsheildin er frábær og það er mjög gaman hjá okkur sem er líka mikilvægt. Við hefðum að mínu mati getað skilið á milli liðanna fyrr í leiknum en við vorum að hleypa þeim inn í leikinn of auðveldlega nokkrun sinnum. En þetta er partur af því að vera með ungt og reynslulítið lið í svona aðstæðum svo það að vinna svona leiki er stór partur af þroska liðsins,“ sagði Helgi vel sáttur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.