Ismael með tvö á Týsvelli
Í gær hélt lið Kormáks/Hvatar út í Eyjar og lék við lið KFS á Týsvelli. Síðustu árin hafa Eyjapeyjar þótt erfiðir heim að sækja og langt frá því sjálfgefið að sækja þangað stig og hvað þá þrjú líkt og Húnvetningar gerðu. Ingvi Rafn Ingvarsson stýrði skútu gestanna til sigurs í sínum fyrsta leik sem þjálfari í 3. deildinni og situr lið Kormáks/Hvatar nú í þéttum pakka um miðja deild. Lokastaðan var 1-2.
Heimamenn komust yfir með marki Eyþórs Orra Ómarssonar á 17. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Á 58. mínútu jöfnuðu gestirnir með marki frá Ismael Moussa og hann var aftur á ferðinni þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og tryggði þar með gestunum þrjú frábær stig.
Liði Víðis í Garði var spáð góðu gengi í sumar og þeir sitja á toppi deildarinnar með 12 stig, hafa enn ekki tapað stigi. Augnablik og Hvíti riddarinn eru síðan með sjö stig en þar á eftir koma fjögur lið með sex stig og eru Húnvetningar þar á meðal. Næstkomandi laugardag er stefnt á að spila fyrsta leikinn á Blönduósvelli í sumar en þá koma Hvítu riddararnir í heimsókn. Það verður eflaust spennandi leikur. Áfram Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.