Innviðaskuld ríkisstjórnarflokkanna
Sumarið sem aldrei kom
Hver í sínu horni og allir ósammála öllum
Nú eru sjö ár síðan ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var mynduð. Þá var sérstaklega tiltekið að samstarfið snérist ekki um pólitísk málefni heldur stöðugleika. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, margt farið úrskeiðis og stöðugleikinn víðsfjarri hér í raunheimum. Það kom lítið að sök í heimsfaraldri kórónuveiru að starfandi væri ríkisstjórn sem hafði það að markmiði að gera ekkert, enda setti hún stjórn landsins í hendur embættismönnum meðan ráðherrar hölluðu sér aftur með hendur í skauti. Þetta tímabil kostaði þjóðina skiljanlega gífurlega fjármuni og til stóð að fara í sparnaðaraðgerðir þegar faraldri lyki. Aldrei varð þó af því þar sem ríkisstjórnin hefur stóraukið útgjöld allar götur síðan. Leiða má líkum að því að þegar allir eru ósammála öllum í ríkisstjórn á sama tíma og þeir eru staðráðnir í að halda völdum og vegtyllum geti flest farið úr böndunum. Þannig hafa ráðherrar hegðað sér eins og þeir séu eini krakkinn í sandkassanum og allur sandurinn sé þeirra. Þeir hafa enda spilað sína einleiki með gífurlegum útgjöldum úr ríkissjóði almennings allan tímann ásamt því að hækka í sífellu skatta og gjöld á fólk og fyrirtæki. Þessi sjálfhverfa hegðun ráðherranna hefur svo valdið verðbólgu á pari við þjóðir sem eiga í styrjöldum og um leið vöxtum sem eru allt og alla að drepa.
Innviðaskuld eftir hentugleikum
Mörg undanfarin ár hefur landsmönnum orðið tíðrætt um ástand vega og annarra umferðamannvirkja í landinu. Þeim sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og sumra þettbýlisstaða hefur verið boðið upp á akstur eftir lélegum og á stundum handónýtum vegum. Viðhald hefur nánast ekkert verið síðustu misserin og varla verið haft fyrir því að hefla holótta stórgrýtismalarvegi víða í dreifbýli landsins. Fjöldi gamalla slitlagsvega hefur verið afskiptur við úthlutun viðhaldsfjár þannig að þeir hafa versnað stórum ár frá ári. Þá hefur þótt tíðindum sæta ef ráðherra hefur sett fjármuni í endurbyggingu malarvega með ásetningu nýs bundins slitlags, en einna helst hefur slíkt gerst korter í kosningar til Alþingis íslendinga.
Undirritaður sat á Alþingi í eina viku í nóvember fyrir tveimur árum. Þá hafði hann orðaskipti í ræðustól við þáverandi ráðherra samgöngumála um ástand vegakerfisins og þær umræður almennings sem hann hafði orðið áskynja lengi um hversu lítið væri gert í viðhaldi og endurbótum. Það er skemmst frá því að segja að ráðherrann kannaðist alls ekki við umræður fólks á þessum nótum, heldur vildi hann meina að mest væri talað um hve mikið væri unnið í vegamálum. Þessi ummæli vöktu furðu, en ef til vill er hægt að tengja það þeirri tilviljun að vegir og samgöngumál í kjördæmi ráðherrans, Sigurðar Inga, eru í miklu betra horfi en víðast hvar annarsstaðar. Þannig er líklegt að þessi ráðherra samgöngumála í tæp sjö ár hafi eingöngu rætt við kjósendur eigin kjördæmis um vegamál.
Nýverið sló ríkisstjórnin um sig með svokallaðri uppfærslu á “Samgöngsáttmála höfuðborgarsvæðisins”. Ekki þótti við hæfi að fara í endurskoðun og lagfæringar, heldur var ákveðið að bæta vel á annað hundrað milljörðum í hítina þannig að díllinn stendur nú í 311 þúsund milljónum króna. Við það tækifæri og í öllum fagnaðarlátum ráðherra og þingmanna ríkisstjórnarflokkanna hafði nýr innviðaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, orð á því að ríkið og þar með skattgreiðendur væru í mikilli innviðaskuld við höfuðborgarsvæðið. Öllu má nú nafn gefa, en borgaryfirvöld hafa í mjög mörg ár neitað ríkinu um að framkvæma endurbætur á þeim vegum sem undir Vegagerðina heyra í borginni en í staðinn heimtað eittþúsund milljónir ár hvert í ósjálfbæran rekstur strætisvagna. Þá hefur ríkið greitt mikla fjármuni í uppbyggingu hjólreiðastíga í höfuðborginni á sama tíma. Ríkisstjórnin virðist ekki telja að ríkið sé í innviðaskuld við landsbyggðina sem þó hefur verið að miklu leyti afskipt í vegamálum.
Fljótagöng til bjargar mannslífum
Vegagerð á fyrst og fremst að snúa að umferðaröryggi og því næst um góða tengingu byggða landsins bæði dreifbýlis og þéttbýlis. Þegar flottræfilshátturinn er kominn á það stig að ætla landsmönnum að punga út fleiri milljörðum króna í hönnunarbrú úr ryðfríu stáli sem almenningi verður að auki bannað að aka um á eigin bílum er illa fyrir okkur komið. Á sama tíma hefur formaður Framsóknarflokksins sem ráðherra samgöngumála árum sama dregið siglfirðinga og skagfirðinga á asnaeyrum varðandi hönnun og smíði jarðganga í stað stórhættulegs vegar sem skríður hægt en örugglega í sjó fram. Engin framsýni hefur komist að hjá ráðamönnum ríkisstjórnarinnar í þessu máli og engin afsökun er boðleg að ekki skuli neitt hafa verið gert.
Hagsmunir kjósenda eða ráðherra?
Nú líður senn að kosningum til Alþingis íslendinga. Þá er rétt fyrir okkur öll að staldra við og velta fyrir okkur hvernig við viljum að landinu verði stjórnað næstu árin. Viljum við flokka sem sammælast um að sitja í ríkisstjórn með enga stefnu aðra en að sitja að kjötkötlunum og úthluta gæðum til sín og sinna? Viljum við flokka sem hafa ráðherra á boðstólum sem árum saman hafa sýnt áhugaleysi um afkomu og kjör landsmanna? Viljum við flokka sem hafa sýnt með aðgerðum sínum og tali að skattahækkanir og allskyns nýir skattar séu þeim helst að skapi? Viljum við flokka sem meta ýmis málefni ríkjandi rétttrúnaðar æðri en hag og afkomu kjósenda? Ég tel að íslendingar séu búnir að fá nóg af orðskrúði án aðgerða og loforðum án efnda. Ég tel að landsmenn vilji að stjórnmálamenn segi hvað þeir vilja gera og standi við það sem þeir segja.
Það er orðið tímabært að gefa þeim flokkum frí sem ekki setja hag almennings í fyrsta sæti. Skoða þarf gaumgæfilega og meta hvað stjórnmálamenn segja annarvegar og hinsvegar hvað þeir gera, en þar er oft ekki samasem merki á milli. Þá getum við öll kosið eftir okkar eigin skoðun og sannfæringu og verið þess fullviss að við kusum rétt.
Það munar um Miðflokkinn.
Höfundur Högni Elfar Gylfason er varaþingmaður Miðflokksins í norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.