Hvíti riddarinn með undirtökin gegn Stólunum

Gestirnir fagna sigurmarki leiksins í dag. MYND: ÓAB
Gestirnir fagna sigurmarki leiksins í dag. MYND: ÓAB

Tindastóll fékk Hvíta riddarann úr Mosfellsbæ í heimsókn í dag í átta liða úrslitum í úrslitakeppni 4. deildar. Heimamenn voru töluvert öflugri í fyrri hálfleik en engu að síður 1-2 undir í hálfleik. Gestirnir voru grimmari í síðari hálfleik en heimamenn fengu færi til að jafna undir lokin en allt kom fyrir ekki. Lokatölur því 1-2 og ljóst að Tindastólsmenn þurfa að gera betur í Mosó á þriðjudaginn ef þeir ætla sér lengra í úrslitakeppninni.

Lið Tindastóls hóf leik af krafti og gestirnir komust varla fram fyrir miðju fyrstu 10-15 mínúturnar. Stólarnir spiluðu boltanum vel kanta á milli en gestirnir voru skipulagðir í varnarleiknum og gáfu heimamönnum fá færi á sér. Fyrsta markið kom því talsvert gegn gangi leiksins á 31. mínútu þegar Euður Andri Thorarensen slapp inn fyrir vörn Tindastóls eftir ágæta stungu og skoraði af öryggi fram hjá Antoni Helga í markinu. Stólarnir lögðu ekki árar í bátar og uppskáru vítaspyrnu eftir að farið var aftan í Jónas Aron í teignum og Konni skilaði boltanum í markið. Staðan jöfn en gestirnir náðu forystunnu á ný á markamínútunni (43) en þeir náðu þá að refsa Tindastólsmönnum sem áttu kæruleysislega sendingu úr vörn og inn á miðju þar sem boltinn var hirtur af þeim og rennt inn fyrir vörnina þar sem Patrekur Orri Guðjónsson skoraði. Stólarnir hafa verið að fá allt of mörg mörk svipuð þessum á sig að undanförnu og þurfa helst að skrúfa fyrir þennan leka strax.

Staðan því 1-2 í hálfleik og ljóst lið Tindastóls þurfti að mæta gírað til leiks í síðari hálflelik. Það gerðist því miður ekki, þrátt fyrir að trommuleikari bættist í stuðningsmannasveitina á pöllunum, því liðið náði einhvernveginn aldrei takti og ef eitthvað var þá voru gestirnir líklegri að bæta við marki. Anton varði frábærlega einn á móti einum en síðasta stundarfjórðunginn reyndu Stólarnir að klóra í bakkann og hefðu átt að jafna í uppbótartíma en gestirnir björguðu á ögurstundu.

Mosóarnir eru því með sterka stöðu fyrir síðari leik liðanna, sem fer fram nú á þriðjudaginn, en þar getur allt gerst. Liðin voru bæði öflug en það vantaði gæði á síðasta þriðjungnum hjá Stólunum til að gera andstæðingnum erfitt fyrir. Það var slæmt að missa Spánverjann og markamaskínuna Basa í sumar og ljóst að þeir sem komu í staðinn búa ekki yfir sömu gæðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir