Húsnæðiskosturinn sprunginn

Samkvæmt teikningum sem voru lagðar fram árið 2020 er um að ræða 1200 fermetra viðbyggingu og er kostnaðurinn áætlaður um 720 milljónir króna. 
MYND: VERKFRÆÐISTOFAN STOÐ Á SAUÐÁRKRÓKI
Samkvæmt teikningum sem voru lagðar fram árið 2020 er um að ræða 1200 fermetra viðbyggingu og er kostnaðurinn áætlaður um 720 milljónir króna. MYND: VERKFRÆÐISTOFAN STOÐ Á SAUÐÁRKRÓKI

Í vikunni sagði ruv.is frá því að aldrei fyrr hefði Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra staðið frammi fyrir þeirri áskorun að þurfa að nýta gáma, skólaganga og kaffistofu kennara fyrir kennslu. En undanfarin ár hefur nemendum skólans fjölgað umtalsvert og þá sérstaklega í verknáminu.

Árið 2013 voru nemendur 490 talsins, þar af 119 í verk- og starfsnámi og tólf í helgarnámi. Í dag eru nemendur 740 talsins og eru 387 í verknámi og 119 í helgarnámi. Þar sem húsakynni skólans hafa ekkert breyst í fjölmörg ár, eða síðan 2011 þegar viðbygging við verknámshúsið var tekin í notkun, er eðlilegt að það fari að þrengja að þegar nemendum fjölgar.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Ingileif Oddsdóttir, skólastjóri FNV, skrifuðu undir viljayfirlýsingu þann 9. maí 2022 um stækkun verknámshúss skólans og hafði hann orð á því, á þeim tíma, að það væri búið að vinna ákveðna frumathugun á húsnæðisþörfinni á Króknum, sem var gerð árið 2020, og að setja ætti fjármagn og aukin kraft í að ljúka þeirri vinnu og fullmóta það sem er þá næsti fasi að því að hægt sé að hefja framkvæmdirnar sjálfar.

Með þessum aukna fjölda í skólanum hafa skólastjórnendur og kennarar tekið á það ráð að gera ýmsar breytingar og tilfærslur á skólabúnaði til að spara pláss svo hægt sé að halda uppi kennslu á viðunandi hátt fyrir bæði nemendur og kennara. Þá hafa verið settir niður gámar sem eru notaðir bæði fyrir nemendur sem stunda dagnám og fyrir þá sem stunda helgarnám við skólann og þurfa þeir því að deila verkfærum. Kennarar í verknámshúsnæði þurftu svo að láta eftir kaffistofuna sína til að nýta sem kennslurými. Það er því nokkuð ljóst að aðstaða nemenda og kennara uppfyllir ekki helstu kröfur sem eru gerðar til kennslu en vonast er til að bygging nýs tólf hundruð fermetra verknámshúss hefjist í vor. Þangað til sú bygging verður tilbúin, sem gæti tekið einhver ár, verður fólk að sætta sig við að þetta sé svona.

Vonandi vinnur þetta ekki gegn því að krakkar velji skólann til náms því mikil vinna hefur verið lögð í það að kynna skólann og það sem hann hefur upp á að bjóða í námi síðastliðin ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir