Fáein orð um reiðfatnað :: Kristinn Hugason skrifar
Í þessari grein langar mig til að taka smá sveig í umfjöllun minni um sögu og þróun hestamennsku og keppni á hestum hér á landi og víkja ögn að þróun reiðfatnaðar. Ekki ætla ég hér að fara djúpt í efnið eða að hverfa langt aftur í tímann en í hinni stórfróðlegu bók Þórðar Tómassonar í Skógum, Reiðtygi á Íslandi um aldaraðir, sem út kom hjá Máli og mynd árið 2002, er gamla tímanum gerð góð skil og mun ég síðar víkja að því og gera þessu efni frekari skil. Enda er það svo víðfeðmt að ekki verður afgreitt í einni stuttri grein. Núna langar mig hins vegar til að tæpa á fáeinum seinni tíma sögupunktum.
Áður en lengra er haldið vil ég þó vitna í eftirfarandi upphafsorð kaflans „Fararbúnaður af ýmsum toga“ í téðri bók eftir Þórð í Skógum, þar segir: „Gamlar heimildir og gamlar myndir bera því vitni að fólk fyrri tíða átti sér sérsaumuð reiðföt og reyndar hafa nokkur þeirra borgist fram á þennan dag. Um aldir hafa þau borið blæ af klæðasniði annarra þjóða, því menning þjóðarinnar var lengst af með einum eða öðrum hætti innflutt.“ Lokaorðið í málsgreininni, innflutt, er lykilorðið í þessu samhengi, íslensk menning, og þá á sama hvaða sviði er, rís hæst eflist hún í krafti erlendra áhrifa. Í sambandi við innflutning vöru hingað til lands er rétt að hafa í huga að hann var lengi vel í takt við þá háttu sem á voru hjá nágrannalöndum okkar hvað verslunarstefnu áhrærði og réðist af kaupgetu almennings allt þar til fram á síðustu öld kom, þ.e. tuttugustu öldina.
Á síðari hluta nítjándu aldar og allt fram að fyrri heimstyrjöld sveif mikill frjálslyndisandi yfir vötnum heimsviðskiptanna og mikill hagvöxtur ríkti. Vitaskuld réði kaupgeta hvers og eins hvað fólk gat leyft sér en ýmsir, bæði menn og konur, voru mjög svo hoffmannlega búin á hestbaki og í reiðfatnaði sem sýnilega var fenginn erlendis frá. Var klæðnaðurinn ekki einungis fagur og hátískulegur heldur og skjólgóður, þó stundum brigði til beggja átta með það, en svo segir gamall málsháttur: „Fár kann sig í fögru veðri heiman að búa.“
Um hremmingar þær sem á dundu í tengslum við fyrri heimsstyrjöldina en þó einkanlega kreppuna miklu sem hófst 1929 og var mjög langvinn, má víða lesa í bókum; fræðiritum, fjölmörgum ævisögum og skáldsögum s.s. í Sjálfstæðu fólki eftir Laxness. Fræðimenn telja skýringanna á því hversu langvinn kreppan varð að leita í röngum aðgerðum til að vinna bug á henni en aðgerðirnar fólust mest í ýmiskonar aðhaldsaðgerðum og verslunarhöftum. Óvíða varð kreppan langvinnari en hér á landi og hið svokallaða haftatímabil stóð yfir samfellt frá 1931 til 1960 eða í allt að 13 árum lengur en í nokkru nágrannalandi okkar og enn lengur gætti áhrifa þeirra í landinu. Um þessa sögu alla má fræðast í bókinni Þjóð í hafti, eftir Jakob F. Ásgeirsson sem út kom hjá AB árið 1988.
Haftabúskapurinn hafði áhrif í stóru sem smáu, þannig höfðu innflutningshöftin meira að segja áhrif á jafn smátt svið í heildarsamhenginu og reiðbúnað allan. Þegar skoðaðar eru myndir frá þessu tímabili er algengt að sjá fólk klætt upp á séríslenska vísu en líka margt mjög smekklegt. Ekki var þó allt neikvætt, þannig viðhélst klæðskeraiðnaður og fataframleiðsla varð til. Þannig eru til glæsimyndir af knöpum í alfatnaði sérsaumuðum hér á landi; reiðjakki og buxur úr alullarefnum en fyrir tíma teygjuefnanna þannig að pokinn þurfti að vera til staðar á buxunum til að þær þjónuðu tilgangi sínum. Vil ég hér koma á framfæri beiðni þess efnis til lesenda að ef nokkur þeirra veit til að leynist inni í fataskáp slíkur reiðfatnaður að hafa samband við mig. Slíkt væri kærkomin viðbót við safnkost Sögusetursins.
Mynd frá landsmótinu á Vindheimamelum 1982. Lengst til hægri er sigurvegari í flokki klárhesta með tölti á mótinu, Hrímnir frá Hrafnagili, setinn af eiganda sínum Birni Sveinssyni klæddum í félagsbúning en til vinstri er Vængur frá Kirkjubæ sem varð í öðru sæti, setinn af eiganda sínum Jóhanni Friðrikssyni í Kápunni. Jóhann er þarna kominn í skóbuxur og reiðskó, íklæddur reiðstakk með derhúfu, allt í eigin stíl. Ljósmynd úr safni SÍH, ljm.: Jón Tr. Stgr.
Um stígvél eða skó og nokkuð um yfirhafnir
Þegar ég var strákur að alast upp norður á Akureyri minnist ég þess vel að þá var fólk búið á allan mögulegan hátt á hestbaki. Inn á milli fólk mjög vel til haft þegar það átti við, s.s. í reiðfötum þeim er ég lýsti hér á undan eða í annars konar jökkum og reiðbuxum, gegnum gangandi í pokabuxum en pokinn mismikill. Stígvél voru allsráðandi, oftast gúmmístígvél og yfirleitt af gömlu þekktu merkjunum, s.s. Nokia og Víking sem stóðu reyndar mjög föstum fótum fyrir norðan, þá þótti flott að vera í háleistum sem iðulega var brett upp yfir stígvélin. Svo komu Aigle stígvélin með þrönga bolnum um kálfann! Enginn þótti maður með mönnum nema að vera í Aigle stígvélum, jafnvel í smalamennskum og víðar þar sem þau hentuðu alls ekki en þau voru svo flott og létu sér í léttu rúmi liggja málsháttinn áður nefnda; fár kann sig í fögru veðri heiman að búa. Reiðskór þekktust ekki en leðurstígvél voru til en ekki algeng.
Yfirhafnir voru ýmiskonar og töluvert um að menn riðu út í vinnugöllum. Margir stórhestamenn, s.s. atvinnutamningamenn o.fl. sem riðu mikið út í misjöfnu veðri voru í gæruúlpunni frábæru frá VÍR, ekki þótti þetta flottur klæðnaður eða mikill viðhafnaklæðnaður á þeim tíma og voru úlpurnar kallaðar ýmsum nöfnum sem ég hygg að ýmsir minnist, en vegur þessarar flíkur átti aldeilis eftir að aukast, verða tískuklæðnaður á hippaárunum og fyrirtækið sem framleiddi að sigla í gegnum brotsjó á bæði borð og fara að framleiða á alþjóðlegan markað útvistar- og tískuklæðnaðar og heitir í dag 66°Norður. Smekkfólk var svo í fyrrnefndum klæðskerasaumaða reiðfatnaðinum á tyllidögum eða þá í stökum jökkum ýmiskonar við reiðbuxurnar, sjaldan þó eiginlegum sérsaumuðum reiðjökkum þegar ég man fyrst eftir.
Þáttaskil urðu þó fljótlega hvað þetta varðar en árið 1970 var Félag tamningamanna (FT) stofnað. Var það fyrst félaga til að taka upp samstæðan félagsbúning. Kveikti þetta almenna viðleitni til að klæðnaður hestamanna yrði snyrtilegur og samstæður; á næstu árum þar á eftir voru félagsbúningar teknir upp í hestamannafélögum um land allt. Fljótlega varð jakki í sniði sem kallað er enskur reiðjakki algerlega ofan á en í millitíðinni voru sums staðar gerðar tilraunir með peysur og skikkjur. Jafnframt tóku reiðbuxurnar stakkaskiptum, ný efni gerðu fært að ryðja pokabuxunum úr rúmi og aðsniðnar buxur úr teygjuefnum urðu allsráðandi. Lopapeysan var svo alltaf við höndina sem hversdags klæðnaður; undir VÍR-úlpum eða öðrum úlpum, vinnugöllum eða ein og sér þegar svo viðraði.
Þegar ég fór erlendis til náms í búfjárkynbótafræði veitti ég nokkrum atriðum fljótt athygli en ég fór næstum strax að umgangast mikið Íslandshestamenn þar. Fyrst vil ég nefna að notkun vaðstígvéla var allt önnur og minni á hestamótum þar en hér heima, þ.e. gúmmístígvéla en glæsileg leðurstígvél voru mun algengari en hér heima og sömuleiðis reiðskór. Þá vil ég nefna að þar sá maður töluvert um að fólk klæddist lopapeysum sem „trend“ en það hafði ég ekki séð mikið af hér heima. Hvað reiðskó varðar er ég næsta viss um að þá sá ég fyrst og þá rétt sniðnar buxur við (jodhpur snið) á fjórðungsmótinu á Gaddstaðaflötum við Hellu árið 1981. Ég fór gagngert frá Akureyri með nokkrum félögum til að horfa á mótið; í minningunni stendur upp úr sigurvegarinn í flokki klárhesta með tölti, Vængur frá Kirkjubæ, setinn af eiganda sínum Jóhanni Friðrikssyni í Kápunni í téðum reiðskóm og skóbuxum og svo var það sviðsetning Skúla skeiðs á kvöldvökunni en kvöldvakan á þessu móti er sú albesta sem ég hef upplifað á nokkru hestamannamóti fyrr eða síðar.
Eins og ég kom að áðan voru reiðstígvélin alls ráðandi hér á landi, sú tegund sem almennt var kölluð Aigle-stígvél hvort sem þau voru alveg öll frá þeim framleiðanda eða ekki, var allsráðandi nema kannski á köldustu dögum að hyggið fólk fór í stígvél eins og t.d. hin klassísku Víking stígvél og þykka ullarleista. Þegar ég hins vegar kom erlendis sá ég inn í aðra veröld, eins og ég hef þegar minnst á, en vil bæta við kynnum mínum af frábærum vetrarreiðstígvélum en allsráðandi voru stígvél frá framleiðandanum Graninge, þar sem skórinn er úr hrágúmmíi en bolurinn úr leðri. Þarna sannast sem oftar að glöggt er gests augað. Stígvél hafa þá kosti fram yfir skó að veita heilstæðari vörn fyrir vætu, snjó og óhreinindum og séu þau úr leðri hafa þau góða öndunareiginleiga enda leðrið frábær náttúruafurð en þarf umhirðu við. Reiðskór og legghlífar koma svo að nokkru marki að sama gagni.
Á þeim áratugum sem liðnir eru síðan það gerðist sem þessi upprifjun nær til hafa gríðarlegar breytingar orðið á reiðfatnaði Íslendinga. Stígvélin lotið mjög í lægra haldi fyrir reiðskóm, skóbuxur nær alveg tekið yfir frá hefðbundnum stígvélabuxum. Vissulega sést nokkuð af fallegum sýningastígvélum úr leðri, mætti þó vera algengara finnst mér persónulega. Einkum þykir mér þó einkennilegt hversu óalgengt það er að nota sérhönnuð vetrarreiðstígvél en þau eru frábær til að halda hlýju á fótum í frosti og snjó og verja svo fyrir slabbi og drullu þegar þannig viðrar.
Læt ég umfjöllun þessari lokið að sinni en mun seinna meir víkja aftur að ýmsum fróðleik og umþenkingum um fararbúnað af ýmsum toga, svo notað sé orðfæri fræðaþularins í Skógum en undir fararbúnað fellur fjölmargt annað í reiðbúnaði en bara föt og skófatnaður.
Kristinn Hugason.
Áður birst í 5. tbl. Feykis 2020
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.