F. Jónsson stækka trésmíðaverkstæði sitt um ríflega helming
Talsvert hefur verið byggt af iðnaðarhúsnæði á Sauðárkróki nú í vetur og þar á meðal má nefna að F. Jónsson byggingaverktakar hafa verið að stækka við sig. Friðrik Þór Ólafsson, starfsmaður F. Jónsson, segir að með byggingunni sé verið að rúmlega tvöfalda stærð aðstöðu þeirra en við eldra húsnæðið bætast nú 800 m2.
„Innan þessarar nýbyggingar eru aðallega geymslur fyrir ýmisleg tengt okkar stafsemi en þar að auki er gert ráð fyrir vélskemmu og nýrri skrifstofu og aðstöðu starfmanna,“ segir Friðrik.
Hafa umsvif F. Jónsson aukist mikið síðustu árin? „Umsvifin hafa verið nokkuð svipuð síðastliðin ár hjá okkur en megin tilgangur þessarar byggingar er að litlu leyti vegna aukinna umsvifa en aðallega til að rýmka um trésmíðaverkstæðishluta hússins við Borgarröst 8 og koma öllu okkar dóti fyrir á einum stað. Starfsemin hefur aðeins breyst hjá okkur þar sem við erum farnir að gera fleira og erum meðal annars með hönnunardeild sem hefur verið að vinna teikningar og brunahönnun. Fjöldi starfmanna hjá okkur er nokkuð breytilegur eftir árstíðum, hefur verið frá 20 manns og farið í allt að 30 manns yfir sumartímann.“
Hver eru helstu verkefnin framundan? „Helstu verkefni sem eru framundan er einna helst að klára raðhúsið við Ránarstíg og önnur verkefni, sem hafa verið í gangi í vetur, á næstu vikum. Í framhaldi af því komumst við vonandi í tvö fjós sem stendur til að byggja í firðinum ásamt dágóðum slatta að öðrum minni verkum. Svo vonandi fer skipulagsvinna að klárast við Freyjugötu svo við getum klárað skólareitinn,“ segir Friðrik að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.