Endurkomusigur hjá Kormáki/Hvöt á Hvammstanga í dag
Það virðist fátt geta stoppað lið Kormáks/Hvatar þessa dagana. Þeir voru í það minnsta á eldi á Eldi í Húnaþingi þegar þeir tóku á móti Vestmannaeyingum í liði KFS á Hvammstanga í dag. Gestirnir skutu Húnvetningum raunar skelk í bringu þegar þeir náðu forystunni snemma leiks en þegar upp var staðið þá bættu heimamenn enn stöðu sína í toppbaráttu 3. deildar og unnu góðan 3-1 sigur.
Það var Eyþór Orri Ómarsson sem kom Eyjapiltum yfir strax á fjórðu mínútu en Ismael Moussa jafnaði metin á 33. mínútu og allt jafnt í hálfleik. 1-1 urðu einmitt úrslitin í toppslag Reynis Sandgerði og Víðis í Garði daginn áður og því upplagt fyrir Kormák/Hvöt að nýta sér það og gefa allt í botn í síðari hálfleik.
Það var Ingvi Rafn þjálfari Ingvarsson sem kom sínum mönnum í forystu á 60. mínútu og á sjöttu mínútu í uppbótartíma gulltryggði Jose Mariano stigin þrjú og Húnvetningar komu sér því enn betur fyrir í öðru sæti 3. deildar. Reynir Sandgerði er sem fyrr í efsta sæti, nú með 32 stig en lið Kormáks/Hvatar er með 29 stig í öðru sæti. Víðir Garði er í þriðja sæti með 26 stig og Árbær í fjórða með 24 stig. Leiknar hafa verið 14 umferðir og enn á eftir að spila átta. Í næsta leik sækja Húnvetningar liðsmenn Elliða heim en Árbæingar eru um miðja deild.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.