Diskódísir eru í forsvari fyrir Eld í Húnaþingi 2024 sem hefst í dag
Íbúar í Húnaþingi vestra taka við kætikeflinu af vinum sínum í austrinu sem hafa nýlokið við að skemmta sér og sínum á Húnavöku. Nú er það Eldur í Húnaþingi sem tekur yfir, fær örugglega sólina lánaða, en dagskráin í Húnaþingi vestra hefst í dag, þriðjudaginn 23. júlí, og stendur fram til sunnudagsins 28. júlí. Það er búið að tilkeyra þessa hátíð og rúmlega það en 21 ár er síðan sú fyrsta fór fram 2003 og hefur verið haldin árlega síðan. Að þessu sinni eru það Diskódísirnar, vinkvennahópur í Húnaþingi, sem hafði veg og vanda af því að setja saman dagskrá DiskóElds í Húnaþingi.
Það var Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir sem svaraði spurningum Feykis í nafni Diskódísa og fyrst var spurt hvernig það kom til að þær vinkonurnar tóku að sér viðburðarstjórn Elds í Húnaþingi. „Vinkonuhópurinn samanstendur af konum úr ýmsum áttum með alls konar reynslu á bakinu. Nokkrar okkar hafa séð um hátíðina áður og einhverjar hafa tekið þátt í undirbúningi hennar. Allar höfum við að einhverju leyti komið að henni á einn eða annan hátt en sem hópur erum við að gera þetta saman í fyrsta skipti.“
Er alltaf nóg af hugmyndum varðandi dagskrárliði? „Við vorum allavega ekki í vandræðum með að fylla dagskrána en við viljum leggja áherslu á að bjóða upp á eitthvað fyrir alla aldurshópa. Ein af aðaláherslum hátíðarinnar er að efla samfélagið í gegnum sameiginlegar upplifanir. Í gegnum sameiginlega sköpun og upplifun menningar og listar er markmiðið að styrkja tengsl milli íbúa, auka skilning á fjölbreyti-leika og byggja brú milli kynslóða og þjóðerna.“
Eru einhverjar skemmtilegar nýjungar í dagskránni sem þið eruð spenntar fyrir? „Við erum mjög spenntar að sjá hvernig ný staðsetning á brekkusöng mun koma út. Hann verður færður úr Hvamminum í hjarta Hvammstanga á Bangsatúni. Eins erum við að bjóða upp á skemmtileg námskeið fyrir krakka, svo sem vísindanámskeið og Minecraft, sem verður gaman að fylgjast með.“
Hverjir eru að ykkar mati topparnir í dagskránni þetta árið? „Stærstu viðburðirnir eru á föstudags- og laugardagskvöld. Dimma verður með tónleika hjá okkur á föstudagskvöld og svo dönsum við með Stuðlabandinu á laugardeginum. Hápunkturinn hjá mörgum er Melló musika á fimmtudagskvöldinu. Melló eru tónleikar þar sem heimamenn stíga á stokk og hefur þessi viðburður fylgt hátíðinni frá byrjun.“
Er eitthvað þema í dagskránni að þessu sinni? „Það er ekkert sér-stakt þema nema við lögðum ríka áherslu á að hafa dagskrána sem fjölbreyttasta. Við í Diskódísum viljum auðvitað bara auka gleðina með litum og glimmeri svo við vonumst til þess að sjá bæinn fagurlega skreyttan og sem flesta í glimmer klæðnaði.“
Eru viðburðirnir haldnir víða í Húnaþingi vestra? „Að þessu sinni eru viðburðirnir allir á Hvammstanga.“
Nú er Húnavakan á Blönduósi jafnan haldin helgina áður, hver er munurinn á þessum hátíðum? „Ætli það sé nokkur teljandi munur nema dagsetningin. Flottar bæjarhátíðir þar sem heimamenn og gestir koma saman og skemmta sér og öðrum.“
Eru íbúar duglegir að taka þátt í dagskránni – bæði að stíga á stokk og sækja viðburðina? „Það hefur svo sannarlega verið hægt að treysta á það að fólk sæki viðburðina og taki virkan þátt. Hvort sem það er með því að skemmta sér eða stíga á stokk. Svona hátíðir væru aldrei mögulegar nema með hjálp allra.“
Hvað er það eftirminnilegasta sem þið hafið upplifað á Eldi í Húnaþingi? „Tónleikar í Borgarvirki, myndataka Diskódísa fyrir plaggat hátíðarinnar fyrir allmörgum árum, óendalegir hæfileikar heimamanna í gegnum tíðina á Melló og endalaus samstaða og samstarf heimafólks til að gera þessa frábæru hátíð að veruleika. Einnig er mjög eftirminnilegt þegar ein Diskódísin rauk á Króksstaðamela að ná í ónafngreinda hljómsveitarmeðlimi. Þeir voru eiginlega of seinir, komu á einkaflugvél. Það reddaðist því það var svo mikið öngþveiti fyrir fólk að koma sér frá Borgarvirki. En í hamaganginum gleymdi hún að loka hliðinu inn á flugvallarsvæðið á leiðinni til baka út á Hvammstanga og þegar hún snéri með þá til baka voru komnar rollur inn á flugvöllinn.“
Hvað er ómissandi á Eldi í Húnaþingi? „Gott veður, gott fólk og góða skapið.“
Þess má geta að vinkvennahópurinn fékk nafnið sitt, Diskódísirnar, fyrir mörgum árum í kjölfar þess að þær höfðu flutt lagið Fagra litla diskódís á söngvakeppni í einhverju gríni.
- - - - - -
Dagskrá Elds í Húnaþingi >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.