Benni er alltaf spenntur þegar það er stutt í nýtt tímabil
„Já, við erum búin að koma okkur fyrir og erum að elska lífið á Króknum. Við erum einnig búin að vera mikið á ferðinnni að ferja dót og eigum eftir að ná í meira dót – okkur líður rosalega vel hérna,“ segir Benedikt R. Guðmundsson, þjálfari Tindastóls í körfunni, þegar Feykir spurði hann hvort hann væri búinn að koma sér fyrir á Króknum. Nú styttist í alvöruna en fyrsti æfingaleikur haustsins er annað kvöld í Síkinu og því rétt að athuga með þrýstinginn hjá þjálfaranum.
Það eru Þórsarar frá Þorlákshöfn sem mæta til leiks í Síkið á föstudaginn og etja kappi við Stólana. Leikurinn hefst lögum samkvæmt kl. 19:15 en þeir allra hörðustu mæta væntanlega í burgerinn um hálf sjö. Reyndar eru planaðir þrír heimaleikir nú næstu þrjá föstudaga. Viku eftir að Þórsarar mæta kemur Stjarnan í heimsókn 13. september og Höttur Egilsstöðum lætur sverfa til stáls í Síkinu þann 20. september. Nokkrum dögum síðar fara Stólarnir síðan austur á Hérað. Mótið hefst síðan í byrjun október með leik gegn Vesturbæingum sem hafa nú skilað sér aftur upp í deild þeirra bestu.
Eru æfingar komnar á fullt og þjálfarinn sáttur með hópinn? „Við erum að æfa á fullu en eins og er er liðið komið stutt á veg. Erlendu leikmennirnir eru nýlentir og næstu vikur fara í að koma mönnum í betra form og slípa liðið saman.“
Ertu spenntur að sjá liðið á föstudaginn gegn Þór, er eitthvað að marka fyrstu æfingaleiki að hausti? „Ég er alltaf spenntur þegar það er stutt í nýtt tímabil og æfingaleikir eru mikilvægur partur af undirbúningnum. Það verður fínt að sjá hvar við stöndum á þessum tímapunkti og ég hlakka til að fá svör við ákveðnum spurningum sem ég er með í kollinum. Úrslitin sem slík skipta litlu máli.“
Hvað stóð upp úr að þínu mati í körfunni á Ólympíuleikunum í sumar? „Það sem stóð upp úr á Ólympíuleikunum að mínu mati var hvað mörg lönd eru farin að nálgast Bandaríkin. Ofurlið bandaríkjanna var stálheppið að fara með sigur af hólmi þrátt fyrir að allar súperstjörnurnar væru með,“ segir Benni að lokum.
Það mátti lesa í aflafréttum Feykis að þú sért farinn að mæta í hafnarhúsið í kaffi. Eru sjóarar og hafnarstarfsmenn búnir að leggja þér lífsreglurnar og fara yfir málin? „Hahaha, ég hef mætt einu sinni í föstudagskaffi út á höfn og fékk þessar fínu vöfflur. Það var vissulega farið yfir málin en það var margt annað rætt en körfubolti. Eflaust verður hann meira ræddur þegar tímabilið er farið af stað,“ segir Benni léttur að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.