Alli Munda með Fuglar á Fróni

Alli stoltur með bókina nýju. MYND AÐSEND
Alli stoltur með bókina nýju. MYND AÐSEND

Nú nýverið kom út bókin Fuglar á Fróni eftir Alfreð Guðmundsson, eða Alla Munda, en þetta er önnur vísnabókin hans en hann gaf út bókina Dýrin á Fróni fyrir tveimur árum. Rétt eins og sú bók þá er nýja bókin myndskreytt af franska listamanninum Jérémy Pailler sem einnig hefur komið að myndskreytingu bóka Byggðasafns Skagfirðinga.Alli segir að það hafi yljað sér um hjartaræturnar og verið magnað að fá póst frá leik- og grunnskólafólki sem vildu þakka honum sérstaklega fyrir bókina. „Það þótti mér alveg einstakt,“ segir vísnahöfundurinn.

„Ég byrjaði um mitt árið 2023 að huga að Fuglum á Fróni,“ segir Alli þegar hann er spurður hvernig hugmyndin að bókinn hafi fæðst. „Ég fór að pæla í fyrirkomulaginu og fljótlega þróaðist hugmyndin og ég ákvað að semja vísur um 24 fuglategundir í sex flokkum fugla sem finnast á Íslandi. Ég valdi að semja tvær vísur um hverja fuglategund og áttu þær að lýsa einkennum og útliti fuglanna að einhverju leyti. Ég ákvað að hver og einn fuglaflokkur hefði sín séreinkenni.“

Hvaða vinna liggur að baki vísnagerðar eins og í þessari bók? „Það liggur allmikil vinna að baki. Fyrst þurfti ég að móta ákveðinn ramma um hvernig ég ætlaði að hafa bókina. Í bókinni má finna vísur sem samdar eru eftir mismunandi bragarháttum og hefur hver fugla-flokkur sérstakan hátt. Ein undarteknig er þó, því lundinn fær sér bragarhátt. Þannig að ég þurfti að kynna mér þá bragarhætti sem ég notaði í bókinni og einnig að kynna mér helstu einkenni þeirra fuglategunda sem ég valdi. Svo er það nú stundum þannig að maður hefur þá tilhneigingu að breyta vísunum, er ekki fyllilega sáttur með útkomuna og reynir að laga þær, þangað til maður er orðinn sáttur. Ég kláraði að semja síðustu vísurnar í maí á þessu ári. Þá þurfti ég að þýða vísurnar yfir á ensku fyrir Jérémy, sem litaði myndirnar, svo hann gæti tengt myndirnar við fuglavísurnar.

Jérémy Pailler er snillingur

Hvað geturðu sagt okkur um listamanninn sem myndskreytir? „Það er ósköp einfalt; hann er snillingur. Ég ákvað að fá sama listamanninn og myndskreytti fyrri bók mína sem vakti verðskuldaða athygli, Jérémy Pailler frá Frakklandi, til að mála myndirnar og sjá um grafíska hönnun á bókinni. Jérémy er einstaklega hæfileikaríkur listamaður og leysir öll verkefni glæsilega. Hann er mjög hugmyndaríkur og myndirnar í bókinni hafa vakið hrifningu hjá þeim sem hafa séð bókina og hönnunin þykir virkilega flott.“

Er einhver uppáhalds fugl í bókinni eða einhver vísa sem þú varst ánægðastur með? „Ja, það er nú erfitt að gera upp á milli þeirra enda hef alla tíð verið mikill áhugamaður um fugla. Ef ég þarf nauðsynlega að velja vísur um eina fuglategund, þá vel ég vísurnar um skógar-þröstinn. Þær eru svona:

   Sældarlegur sest á grein,
   sönghæfni í lundum beitir.
   Er með brúnan augastein,
   ánamaðks og fræja neytir.

   Dökkmóbrúnn að ofan er,
   algengur í landsins fjörðum.
   Röskur tínir reyniber,
   ráfar um í húsagörðum.

Útgáfuhóf í Árskóla á laugardaginn

Fékk fyrri bókin, Dýrin á Fróni, góðar undirtektir? „Dýrin á Fróni fékk mjög góðar viðtökur. Hún var hugsuð meira fyrir yngri kynslóðina en féll samt vel í kramið hjá öllum aldurshópum.“

Sérðu fyrir þér framhald á bókaútgáfu? „Það er aldrei að vita. Ef ég geri fleiri vísna- eða ljóðabækur þá held ég að hún verði með öðru sniði, hún verði ekki myndskreytt. Annars er ég ekkert farinn að hugsa út í það. Tíminn verður að leiða það í ljós.“

Á að fagna útgáfu bókarinnar? „Já heldur betur! Ég ætla að hafa útgáfuhóf í matsal Árskóla laugardaginn 26. október. kl 15:00. Þar mun ég kynna innihald bókarinnar og bjóða gestum upp á kaffi og kleinur.“

Að lokum bendir Alli á að ef einhver hefur áhuga að eignast bókina, þá er hægt að fá eintak hjá höfundi með því að senda línu á allimunda@internet.is. Bókin fæst einnig í Skagfirðingarbúð.

- - - - -
Lengri útgáfu viðtalsins má finna í prentútgáfu Feykis, 40. tölublaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir