Að hafa borð fyrir báru : Friðbjörn Ásbjörnsson

Friðbjörn Ásbjörnsson. Myndir teknar af Fisk.is
Friðbjörn Ásbjörnsson. Myndir teknar af Fisk.is

Friðbjörn Ásbjörnsson framkvæmdastjóri Fisk Seafood skrifaði pistil sem birtist á heimasíðu félagsins sem hljóðar svona...

Áramót 2023/2024

Kæra samstarfsfólk

Það er kannski ekki spennandi efni í áramótagrein að rifja upp mikilvægi þess að hafa borð fyrir báru og ekki síst þegar halda þarf sjó við tvísýnar aðstæður. Sú er samt staðan um þessar mundir og mér finnst rétt að gera hana að umtalsefni.

Góðu fréttirnar eru að rekstur okkar á undanförnum árum hefur gengið einkar vel og árið sem nú er að baki varð þar engin undantekning. Fjárfestingar okkar, m.a. í auknum bolfiskkvóta og uppsjávarveiðum í gegnum kaup á ríflega þriðjungshlut í Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum, hafa sömuleiðis skilað okkur umtalsverðri verðmætaaukningu síðustu árin. Fisk Seafood stendur fyrir vikið afar traustum fótum.

Ég kem betur að lykiltölunum í þeim efnum síðar í þessari grein en mér finnst eðlilegt að rekja fyrst nokkur þeirra atriða sem óvissa ríkir um en skipta daglegan rekstur okkar gríðarlega miklu máli. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera utan þess sem við sjálf getum stýrt. Með því að gera þessi atriði að umfjöllunarefni er ég ekki að biðja neinn um að finna til með okkur sem stöndum í brú íslenska sjávarútvegsins. En viðfangsefnin eru alla daga áskorun og mér finnst mikilvægt að sem flestum í starfsliði FISK Seafood séu þau kunnug.

83% allra tekna FISK Seafood koma erlendis frá. Aðstæður á heimsmarkaði skipta okkur því miklu máli. Þar eru ýmsar blikur á lofti. Stríðið í Úkraínu hefur stöðvað veiðar okkar í rússneskri lögsögu og haft margvísleg neikvæð hliðaráhrif á líf og kjör fólks víða um heim. Sama má segja um hin skelfilegu átök fyrir botni Miðjarðarhafs.

Vaxtagjöld heimila á helstu markaðssvæðum okkar hafa hækkað gífurlega á undanförnum misserum. Húshitunarkostnaður vegna verðhækkana á gasi og olíu er í þannig hæðum að fjölmargt fólk klæðir af sér kuldann frekar en að kynda hús sín. Verðbólga um alla Evrópu er mikil og kaupmáttur hefur rýrnað verulega. Væntanlega má að mörgu leyti líkja stöðunni við kreppuástand enda þótt það stóra orð sé ekki ennþá fyrirferðarmikið í umræðunni.

Við þessar aðstæður er eðlilegt að fólk leiti í ódýrara fæðuprótein heldur en það sem fæst úr heilnæmri hágæða villibráð úr Norður-Atlantshafinu eða öðru villtu sjávarfangi. Eldisprótein á borð við kjúklinga- og svínakjöt, fjöldaframleiddir skyndibitar o.m.fl. býðst fólki um allan heim sem einföld og ódýr leið til þess að metta magann. Eðlilega sækja þessir valkostir í sig veðrið þegar harðnar á dalnum í heimilisbuddunni. Þess vegna þurfum við að vera á tánum alla daga ársins hvað varðar verðlagningu og markaðsfærslu þeirra hollustumatvæla sem við höfum á boðstólum.

Við ráðum heldur engu um súrnun og mengun sjávar sem ógnar lífríki hafsins, hreinleika matvælanna sem þangað eru sótt og um leið ímynd sjávarfangsins sem lengst af hefur nánast verið óaðfinnanleg. Við Íslendingar eigum að leggja allt sem við getum af mörkum til alþjóðlegs vísindastarfs í þessum efnum. Og úr því að vísindin hafa verið nefnd vil ég gjarnan árétta þá skoðun mína að miðað við þau verðmæti sem dregin eru úr sjó á Íslandsmiðum sé það áhyggjuefni hve hafrannsóknir okkar eru á margan hátt í skötulíki. Við eigum afskaplega góða og vandaða vísindamenn en svigrúm þeirra til athafna er því miður takmarkað vegna hins eilífa fjárskorts sem stofnunin hefur svo lengi búið við.

Fjárhagslegar takmarkanir í hafrannsóknum leiða hugann vitaskuld að stærsta óvissuþættinum í rekstri okkar: Kvótanum. Ákvarðanir Hafrannsóknastofnunar og stjórnvalda hafa í gegnum tíðina eðlilega verið umdeildar. Sumar hafa eflaust verið skynsamlegar en aðrar að sama skapi skrýtnar og jafnvel illskiljanlegar. Þegar fram líða stundir getur vel verið að sumar ákvarðanir í ráðgjöfinni standist betur skoðun en aðrar en það er afleitt ef rangar og íþyngjandi ákvarðanir hafa mögulega verið teknar vegna þess að svigrúm til vandaðrar ráðgjafar hafi takmarkast af fjármagnsskorti til rannsókna.

En aðalatriði málsins er að um þessa árlegu úthlutun aflaheimilda, bæði hvað varðar einstakar tegundir og fyrirkomulag veiðanna, ríkir hjá okkur, rétt eins og öðrum útgerðarfélögum, ávallt sama öryggisleysið. Sveiflur í aflaúthlutunum á liðnum árum hafa verið með ólíkindum og áhrifin mælast jafnvel í milljörðum króna til eða frá hverju sinni. Ég er ekki í vafa um að aukið fjármagn og bætt skilvirkni í hafrannsóknum gæti auðveldað útgerðinni að dýpka sinn eigin skilning á aðstæðum og taka rekstrarlegar ákvarðanir með skýrari sýn til lengri tíma en hægt hefur verið til þessa. Einnig er spurning hvort ekki megi styðjast meira við reynslu sjómanna þegar aflaheimildir eru ákveðnar.

Útgerðarfélögin renna einnig blint í sjóinn hvað varðar ákvarðanir stjórnvalda nánast frá ári til árs um auðlindagjald. Og enda þótt margt sé skrýtið í kýrhausnum hvað aflaheimildir varðar hverju sinni eru ákvarðanir um auðlindagjald fyrir einstakar tegundir oft ekki síður illskiljanlegar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Gagnsæið á bak við þær ákvarðanir er lítið sem ekkert og rökstuðningurinn að mínu viti ennþá fátæklegri. Nema hann sé í grunninn einfaldlega vilji stjórnvalda til enn frekari samþjöppunar og stækkunar rekstrareininga í sjávarútveginum.

Mér er t.d. óskiljanlegt hvernig hægt er að finna það út að auðlindagjald af makríl eigi aðeins að vera ríflega 10% af því auðlindagjaldi sem innheimt er fyrir þorsk, eða 3 krónur á hvert kíló af makríl en 27 krónur fyrir þorskinn. Mér finnst líka afar ósanngjarnt að krókabátur sem er bundinn af því að veiða afla sinn á línu eða handfæri, má að hámarki vera 15 metrar að lengd og 30 brúttótonn, borgi sama auðalindagjald og togarar sem jafnvel eru allt að hundrað sinnum stærri skip.

Það er eðlilegt að leita allra leiða til þess að tryggja eins mikla sátt og mögulegt er um sanngjarnt auðlindagjald. Í okkar tilfelli hjá FISK Seafood mun síðasta ákvörðun þýða að á þessu almanaksári mun auðlindagjald okkar hækka úr um 500 milljónum króna í 620 milljónir. Það er um 24% hækkun á milli ára og enginn veit hvað kemur næst. Ég hef velt því lengi fyrir mér hvort e.t.v. sé eðlilegra að allir þeir sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar til lands og sjávar greiði sérstakt álag á tekjuskatt sinn umfram annað atvinnulíf.

Það er ánægjulegt lykilatriði að við búum við gott og sjálfbært fiskveiðistjórnunarkerfi. Ólíkt flestum þjóðum er íslenski sjávarútvegurinn rekinn án ríkisstyrkja og skilar að auki gríðarlegum verðmætum til þjóðarbúsins. Margir hafa látið í ljós þá skoðun sína að um „hæfilegt auðlindagjald“ muni aldrei nást sátt í samfélaginu. Ég er ekki sammála því en vel kann að vera að við þurfum að nálgast gjaldtökuna af meiri víðsýni og með opnari huga en hingað til hefur verið gert. Vonandi tekst okkur a.m.k. einn góðan veðurdag að eyða þeirri tortryggni sem því miður hefur ríkt í garð sjávarútvegsins í alltof langan tíma.

Ég hef hér að framan rakið ýmsa þætti sem skipta rekstur okkar miklu máli en eru ekki á valdi okkar. Sá síðasti sem ég vil nefna, og kannski sá stærsti af þeim öllum, er samt í okkar eigin garði – höfnin. Enda þótt sveitarstjórn Skagafjarðar hafi einróma ákveðið að ráðast í framsækna stækkun hafnarinnar er óvissa um hvenær stjórnvöld verða reiðubúin til þess að leggja sitt af mörkum svo hefjast megi handa. Það er vissulega ástæða til bjartsýni um að það geti orðið fljótlega en ekki er tímabært að fagna fyrr en höfnin er í höfn ef svo má að orði komast.

Það er hins vegar enginn vafi á því að þegar þar að kemur mun ný og stærri höfn skipta FISK Seafood, atvinnulífið í Skagafirði og bæjarlífið hér á Sauðárkróki miklu máli. Framkvæmdunum mun fylgja mikil landfylling og stóraukið dýpi. Hvort tveggja opnar okkur gjörbreyttar aðstæður og um leið tækifæri til þess að endurmeta fyrri áform um fjárfestingar bæði til sjós og lands.

Róttækasta breytingin sem nú er á teikniborðinu snýst um stærð og staðsetningu nýja fiskvinnsluhússins sem til þessa hefur miðast við núverandi landsvæði Háeyrarinnar og að mestu leyti þann grunn sem núverandi byggingar standa á. Með hafnarframkvæmdunum verður til mikið nýtt land og um leið möguleiki á mun stærri byggingu fyrir hátæknivædda fiskvinnsluhúsið sem verið hefur á hönnunarstigi síðustu misserin.

Sama gildir í raun um endurnýjun í togaraflotanum. Rýmri og dýpri höfn opnar mun stærri skipum en fyrr leiðina að hafnarbakkanum. Og stærri höfn skiptir fleiri en Fisk Seafood miklu máli. Það hefur háð öllu atvinnulífinu í langan tíma að geta ekki tekið stærstu flutningaskipin að bryggju vegna t.d. aðfanga fyrir landbúnaðinn, sjávarútveginn, steinullarverksmiðjuna o.m.fl. Atvinnurekstrinum opnast með sama hætti hagkvæmari möguleikar til að koma afurðum sínum frá sér á innlendan eða erlendan markað.

Með nýtt fast land undir fótum, með nýja landfyllingu og betri höfn í sjónmáli, er hægt að leyfa sér að hugsa stærra. Enda þótt slík áform verði geymd á teikniborðinu þar til vinna hefst við stækkun hafnarinnar stenst ég ekki þá freistingu að birta með þessu ávarpi mynd af mögulegri útfærslu nýs fiskvinnsluhúss sem risið gæti að hluta til á landfyllingunni. Stærð þess takmarkast þá ekki lengur við núverandi landrými heldur miðast við áætlaða þörf okkar fyrir afkastagetu á komandi árum og áratugum.

Fjárfestingar FISK Seafood í auknum fiskveiðikvóta hafa skipt reksturinn síðustu árin miklu máli. Þær hafa gert okkur kleift að halda sjó í bæði veiðum og vinnslu þrátt fyrir umtalsverðan niðurskurð aflaheimilda. Það er áhugaverð staðreynd að fiskveiðiheimildir okkar, sem í dag eru 23.728 þorskígildistonn hefðu á nýliðnu ári ekki verið nema 15.821 ef við hefðum ekki keypt til okkar aukinn kvóta. Við höfum þannig aukið umfang okkar í veiðum og vinnslu um 50% á sl. sjö árum. Þar fyrir utan keyptum við umtalsverðan hlut í Vinnslustöðinni sem reynst hafa vel heppnuð viðskipti.

Alls höfum við frá árinu 2017 fjárfest í þessum aflaheimildum, ásamt skipum og rekstri sem þeim hafa í sumum tilfellum tengst, fyrir um 35 milljarða króna. Hið ánægjulega er að langtímaskuldir FISK Seafood og dótturfélaga um þessi áramót nema engu að síður einungis um 10 milljörðum króna sem sýnir hvað framlegðin frá rekstrinum hefur náð að greiða stóran hluta fjárfestingarinnar nú þegar til baka. Í því samhengi má nefna að afkoma okkar á nýliðnu ári, framlegðin frá rekstri FISK Seafood samstæðunnar, nemur um þremur milljörðum króna.

Þessar tölur auka okkur eðlilega bjartsýni í þeim endurnýjunarverkefnum sem framundan eru. Á næstu fimm árum gerum við ráð fyrir að verja um átta milljörðum króna í byggingu frystihússins og fimm milljörðum króna í kaup á nýjum togara. Hvort tveggja er háð tímasetningu framkvæmda við nýju höfnina. Þá er ótalin áframhaldandi fjárfesting í nýjum fiskveiðiheimildum og mögulega annarri sjávartengdri atvinnustarfsemi.

Að lokum þetta: Heimavöllur FISK Seafood, Sauðárkrókur og Skagafjörður, hefur alla burði til þess að fóstra í senn blómlegt atvinnulíf og mannlíf um langa framtíð. Það er væntanlega engin tilviljun að íbúum í Skagafirði fjölgaði um eitt hundrað manns á síðasta ári. Ungt fólk sér ýmsa kosti við samfélagið sem hér hefur byggst upp og atvinnutækifærin sem stöðugt verða fjölbreyttari. Skólar eru til fyrirmyndar, innviðir flestir eins og best verður á kosið, barna- og unglingastarf íþróttafélaganna er þróttmikið og meira að segja fyrsti Íslandsmeistaratitill Tindastóls í körfuboltanum kominn í hús. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi ánægjulega þróun í íbúafjölgun, atvinnumöguleikum, menntun og menningarlífi héraðsins muni halda áfram á sömu braut.

FISK Seafood þykir vænt um að eiga sinn þátt í þessum kærkomna uppgangi og mun halda áfram að leggja sitt af mörkum til atvinnu- og menningarlífs Skagafjarðar. Að því sögðu óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs með kærri þökk fyrir samstarfið á því sem er að kveðja.

Friðbjörn Ásbjörnsson

Framkvæmdastjóri FISK Seafood

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir