Töfraheimur Bifrastar :: Áskorandapenninn Óli Björn Kárason
Skrítið hvað hlutir verða minni eftir því sem maður verður eldri. Eða kannski að minningin stækki allt og fegri. Í æsku minni var ekkert hús á Króknum stærra en Bifröst og þar gerðust ævintýri í töfraheimi leiklistar, kvikmynda og tónlistar.
Í Bifröst voru haldnar glæsilegar matarveislur þar sem veisluborðin svignuðu og heilu grísirnir voru bornir fram með epli í kjaftinum. Og ekki má gleyma böllunum sem strákpollinn fékk ekki að kynnast nema svona rétt í upphafi þegar hann laumaðist inn í eldhús til ömmu til að kíkja á hvernig þeir eldri skemmta sér og sumir betur en aðrir.
Bifröst var einn af leikvöllum mínum í æsku. Þar réði amma Ólína ríkjum þegar veislur voru haldnar. Græna herbergið var lagt undir enda eldhúsið of lítið. Kaj Jörgensen kom að sunnan enda snilldar matreiðslumaður og lagði tengdamömmu sinni lið. Snæja frænka, eiginkona Kaj, mætti og mamma Eva, Bidda frænka og Björn og auðvitað Gunni frændi. Og það gekk mikið á en pjakkurinn komst ekki undan því að skræla kartöflur og brjóta skurn af eggjum. Gunni frændi og Björn höfðu einstaklega gaman af því að gefa mömmu og Snæju sherrý í flöskutappa enda þurftu þær ekki meira til að byrja að hlæja líkt og þær væru orðnar unglingar á ný.
Svo var Bifröst leikhús. Ninni breytti húsinu í undraheim þar sem Ísland fyrri tíma braust fram. Hersjúkrahús, japanskt tehús og fæðingarstaður Jesú birtust. Íslensk alþýðuheimili og stássstofa yfirstéttar, Gullna hliðið og íslensk örævi. Ekkert var Ninna ómögulegt. Oft réði pabbi ríkjum þegar sett voru upp leikrit en á stundum var meistari Gísli Halldórsson við stjórn. Gísli var sannfærður um að á Króknum væru margir af bestu leikurum landsins. ÉG veit að hann hafði rétt fyrir sér.
Ég átti í ástarsambandi við leiklistargyðjuna í Bifröst og þar steig ég mín fyrstu skref á sviði ásamt Sveini Ólafssyni, æskuvini mínum. Með okkur var lifandi geit sem við gerðum háða Kóki sem í þá daga fékkst aðeins með sykri. Á einni sýningunni missti ég tauminn og geitin slapp, stökk út í sal og olli usla meðal áhorfenda. Leikhúsið í Bifröst var lifandi leikhús þar sem allt gat gerst.
Á sunnudögum var Mundi Valda Garðs kóngurinn í Bifröst og Bogga drottningin. Þriðjudagar og fimmtudagar voru einnig þeirra dagar. Líkt og pabbi ánetjaðist ég bíómyndum og lét fátt stoppa mig. Þau voru ófá skiptin sem mér tókst að laumast baksviðs til að horfa á bíómynd sem var bönnuð börnum. Ekki truflaði það mig að allt væri öfugt. En toppurinn var að fá leyfi Munda að koma upp í sýningarklefann í hléi. Það var sérstök viðurkenning sem var ekki í boði fyrir alla.
Bifröst var sannarlega menningarhús. En leiksviðið hefur minnkað frá áæskuárunum, búningsherbergið er orðið að lítilli kytru, Græna herbergið tekur færri og salurinn hefur skroppið saman. En minningin lifir og leikvöllurinn – ævintýraheimurinn verður síst minni. Ég skora á litla bróður minn, Andra Kárason að taka sér penna í hönd og skrifa næsta pistli.
Áður birst í 40. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.