Guðbjartur er góð fyrirmynd

Ágæti lesandi! Máltækið segir að maður komi í manns stað. Það getur oft verið gott, en líka verið til mikils tjóns. Þar skiptir öllu hvert mannvalið er. Allar horfur eru á að í komandi kosningum verði miklar sviptingar og margir nýir þingmenn taki sæti á Alþingi. Öll viljum við góða fulltrúa á þingi, en vissulega hafa þingmenn unnið sér inn mismikla virðingu landsmanna með framferði sínu.

Vinnusemi og heiðarleiki

Kjósendur hér í Norðvesturkjördæmi eiga margra kosta völ, en ég held að á engan sé hallað þó ég nefni Guðbjart Hannesson fremstan þingmanna sem er bæði ötull og vinnusamur með afbrigðum. Hann gengur að hverju verkefni af áhuga og yfirvegun, kynnir sér vel málavexti og er tilbúinn til að hlusta á og taka tillit til ólíkra sjónarmiða. Slíkir mannkostir eru afar mikilvægir í átökum stjórnmálanna, þar sem oft verða upphlaup af litlu tilefni. Þá er gott að búa yfir reynslu, viti og þroska til að greina aðalatriðin frá upphrópunum og áróðri.

Traust og réttlætiskennd

Ég hef átt því láni að fagna að vinna með Guðbjarti, bæði sem skólamaður og einnig í sveitarstjórn. Það var mér mikilvæg reynsla sem ég hef búið að í mínum störfum.

Allir sem þekkja Guðbjart vita að hann er traustur og góður maður, hrapar ekki að ályktunum eða niðurstöðum, en íhugar málavexti. Hann sækist ekki eftir innihaldslausum átökum, en er manna fúsastur til að rökræða málin til niðurstöðu, en er þó fastur fyrir. Hann er ekki fyrir skyndilausnir, en leggur sig fram um að koma málum heilum í höfn. Sterkasti þátturinn í skapgerð hans er þó réttlætiskenndin. Óréttlæti þolir hann ekki og sættir sig aldrei við.

Sendum rétt skilaboð

Kjósendur vilja væntanlega nýta kosningarétt sinn til að auka virðingu Alþingis sem mest. Þeir hljóta því að standa þétt að baki þeim frambjóðanda sem ávallt hefur sýnt í störfum sínum ábyrgð, traust  og heiðarleika. Allir sem kjósa Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi með Guðbjart Hannesson þar í forystu senda ótvíræð og sterk skilaboð inn á Alþingi um að þeir kunni að meta þessa mannkosti hans og að það geti orðið öðrum til eftirbreytni.

Sveinn Kristinsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir