Byggðasafn Skagfirðinga flaggskip í héraði
Byggðasafn Skagfirðinga hefur með starfi sínu og uppbyggingu verið eitt helsta flaggskip íslenskra safna á undanförnum árum. Þar hefur safnstjórinn unnið brautryðjendastarf með því öfluga teymi sem með henni hefur starfað í gegnum árin. Það var því ánægjuleg viðurkenning þegar safnið fékk íslensku safnaverðlaunin árið 2016 fyrir framúrskarandi starfsemi. Það var hátíðleg stund þegar Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri Bygggðasafnsins um áratugi veitti þessum verðskuldaða heiðri viðtöku.
Það þarf því ekki að koma á óvart að það umrót og óvissa sem verið hefur um stöðu og framtíð safnsins og sýninga á þess vegum, ásamt samningum um safnastarfsemi í Glaumbæ að undanförnu, valdi áhyggjum hjá þeim sem unna Byggðasafninu og hafa lengi fylgst með farsælu starfi þess og láta sig það varða.
Það er mikilvægt að Sveitarfélagið Skagafjörður sýni hug sinn í verki og standi vörð um Byggðasafnið og treysti framtíð þess eins gert hefur verið síðustu áratugi. Byggðsafnið með öflugt fagfólk í forystu hefur átt ríkan þátt í að skapa Skagfirðingum þá sérstöðu sem héraðið hefur öðlast á sviði safnamála og menningtengdar ferðaþjónustu. Hróður þess og orðspor nær langt útfyrir landsteinana.
Byggðasafnið í Glaumbæ og sterkt safnastarf í héraðinu er stolt okkar Skagfirðinga
Gleðilegt sumar
Bjarni Jónsson, VG og óháðum