Björt framtíð í sveitum og þorpum

Oft er sagt að landbúnaður sé ein af meginatvinnugreinum Íslendinga.  Það er hárrétt en segir þó alls ekki alla söguna.  Sveitirnar og atvinnustarfsemin þar er grundvöllur byggðar í landinu því að þorp og bæir án blómlegra sveita eru oftast í vörn og alls kyns vandræðum.  Hagsmunir og lífskjör fólksins í sveitunum og þorpunum og bæjunum eru nefnilega afar mikið og margvíslega samtvinnuð og tengd.

Sem betur fer vill margt ungt og kraftmikið fólk búa í sveitunum og þorpunum og ala þar upp börnin sín og sér réttilega í því alls kyns ávinning og lífsgæði. En einhæft atvinnulíf og fá atvinnutækifæri í sveitunum og þorpunum standa þeim fyrir þrifum.  Þessu þarf að breyta.  Það er afar mikilvægt að stjórnvöld styðji við fjölbreytni en ýti ekki undir fábreytni og einhæfni. Skjóta þarf mörgum og styrkum stoðum undir atvinnustarfsemi í sveitum og þar teljum við í Bjartri framtíð að séu mjög mikil tækifæri.

Samfélagið hefur ákveðið að styðja við landbúnað með beingreiðslum sem lækka verð til neytenda og tryggja tekjugrunn bænda.  Styrkir í landbúnaði hafa  að langmestu leyti runnið til framleiðslu á mjólk og sauðfjárafurðum. Beingreiðslurnar eru framleiðslutengdar. Til þess að fá þær þarf því að framleiða.  Mikilvægt er að draga úr þessari tengingu og breyta beingreiðslum í búsetustyrki þar sem áhugi og tækifæri eru hjá bændum til að beina kröftum sínum að öðru og byggja um leið upp önnur atvinnutækifæri fyrir sjálfa sig og aðra.  Styrkirnir mega ekki verða til þess að tækifærin fjölmörgu  í sveitunum verði síður nýtt.  Bóndi sem býr með golfvöll er sveitinni mikils virði ekkert síður en sá sem býr með sauðfé og báðir hagnast á breyttu fyrirkomulagi.  Sá sem rekur golfvöllinn hefur af því tekjur og sauðfjárbóndinn getur því framleitt meira.

Við í Bjartri framtíð viljum skoða hlutina í nýju ljósi. Stjórnvöld eiga að styðja við nýjar hugmyndir, framtak og kjark.  Lítil breyting með fjölbreytni að leiðarljósi getur skapað ný tækifæri án þess að ógna því sem fyrir er.

Árni Múli Jónasson og G. Valdimar Valdemarsson.

Höfundar eru í 1. og 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar í NV-kjördæmi.

Fleiri fréttir