Valli spáir áfram sól í Húnabyggð
Nú undir kvöld var fundað í Félagsheimilinu á Blönduósi varðandi mögulega uppbyggingu á Flúðabakkasvæðinu en þar er stefnt á að byggja íbúðir fyrir íbúa 60 ára og eldri í Húnabyggð. Samkvæmt upplýsingum Feykis var frábær mæting á fundinn og alls konar hugmyndir ræddar, eins og stærð íbúða og hvort fólk vildi bílskúra og annað í þeim dúr. Voru íbúar auðsjáanlega spenntir að sjá hvernig mál muni þróast en vonir standa til þess að fyrstu íbúðir verði tilbúnar í haust.
Það voru Húnvetningarnir Sigurður Ágústsson, Hermann Arason og Helga Vilmundardóttir, sem eru í forsvari fyrirtækisins sem sér um verkefnið, sem kynntu það fyrir fundargestum.
Bjartsýnisdrengurinn Valdimar Guðmannsson [Valli Húnabyggð] var hinn ánægðasti að fundi loknum og skellti í færslu á Facebook þar sem hann minntist m.a. á að gaman væri að fá „...svona áhugasama burtflutta Húnvetninga af höfuborgasvæðinu, sem eru greinilega með ræturnar á réttum stað...“ til að koma að þessum framkvæmdum og væru tilbúnir til að taka þátt í uppbyggingu í nýja sveitarfélaginu „...eins og þeir sem komu og eru að byggja upp gamla bæinn.“
Valli segir síðan að það skemmi ekki fyrir að væntanlegir verktakar séu líka heimamenn og útlit sé fyrir áframhaldandi framkvæmdagleðí í Húnabyggð. „Það eru allar líkur að það verði áfram sól í Húnabyggð!“ segir Valli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.