Tónleikar Jólahúna að bresta á
Sunnudaginn 17. desember verða tónleikar Jólahúna í Félagsheimilinu á Blönduósi og annar hópu Jólahúna heldur tónleika í Félagsheimilinu á Hvammstanga þriðjudaginn 19. desember. Einkunnarorð tónleikanna voru og eru kærleikur og samstaða.
Jólahúnar urðu til fyrir nokkrum árum og er hugmynd Skúla Einarssonar heitins á Tannstaðabakka sem lést eftir hetjulega baráttu við krabbamein í nóvember 2021. Tónleikarnir eru góðgerðartónleikar og rennur allur ágóði óskiptur til Krabbameinsfélags Austur Húnavatnssýslu. Miðaverðið er 3000. Forsala aðgöngumiða verður fimmtudaginn 14. desember í Félagsheimilinu á Blönduósi frá kl: 16:00-18:00 svo verður hægt að kaupa miða þegar húsið opnar 17:30, tónleikadaginn og tónleikarnir hefjast klukkan 18:00.
„Æfingar hafa gengið vel, ég lofa góðri stemmingu og vonandi sjáum við sem flesta,“ segir Árný Björk Brynjólfsdóttir skipuleggjandi Jólahúna á Blönduósi þetta árið. Árný er einnig ein af þeim sem fram koma og ljá rödd sína á tónleikunum meðal annarra.
Aðrir Jólahúnar en þeir sem fram koma á Blönduósi halda tónleika í Félagsheimilinu á Hvammstanga þriðjudaginn 19.desember, þar opnar húsið kl:19:00 og tónleikar hefjast 20:30. Allur ágóði af þeim tónleikunum renna í Velferðarsjóð Húnaþings vestra. Svo það er ljóst að Jólahúnar syngja inn jólin í austur og vestur Húnavatssýslunum þetta árið. /gg
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.