Nauðsynlegt að Virkja Bessastaði | Ástþór Magnússon

Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Ástþór Magnússon gaf Feyki.

Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Ef fólk kýs ekki mig þá er það að kasta atkvæði sínu á ófriðarbálið. Engu máli skiptir hvern af hinum ellefu fólk kýs. Þeir frambjóðendur eru allir tilbúnir að standa með kjósendum í stríði, en ég er ekki tilbúinn í það. Ég vil sem forseti vinna til friðar og mitt fyrsta verkefni verður að leita friðarsamninga við Rússa sem hafa að undanförnu skilgreint Íslendinga sem óvinaþjóð og hernaðarsérfræðingar telja að séu að skipuleggja árás á norðurslóðir jafnvel með kjarnorkuvopnum.

Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Mig langar ekki til þess en tel nauðsynlegt að Virkja Bessastaði til friðar og lýðræðisþróunar. Þjóðin þarf forseta sem sameinar hug-sjón, heiðarleika, þolinmæði og þrautseigju. Með því að halda ótrauður áfram eftir 28 ár, hef ég sýnt og sannað að ég hef til að bera þann styrk sem forsetinn þarf til að krefja stjórnvöld um breytingar frá hernaði til friðarstefnu, leiða mál til lykta og halda í skefjum þeim öflum sem vilja ráðskast með vald þings, stjórnsýslu eða fjölmiðla í sérhagsmunagæslu á kostnað þjóðarinnar.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Að horfa upp á það í 28 ár hvernig lýðræðið er fótum troðið í aðdraganda forsetakosninga. Fjölmiðlar sem gagnrýna kosningar í öðrum löndum starfa síðan með álíka hætti til að hafa áhrif á kosningar. Ef eitthvað er þá sýnist mér þetta ástand versna með árunum.

Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Að stíga fram með friðarboðskapinn og fara á móti straumnum í 28 ár. Hafði aldrei tekið þátt í stjórnmálum, var lítið fyrir að koma fram í fjölmiðlum þegar ég fékk þrjár sýnir sem ég lýsi í bókinni Virkjum Bessastaðisem olli straumhvörfum í mínu lífi og varð til þess að ég yfirgaf blómlegt fyrirtæki, stofnaði friðarsamtök og kynnti hugmyndafræðina Virkjum Bessastaði fyrir þjóðinni.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Ég tók mér það fyrir hendur sem áhugasviðið var, ljósmyndun og myndlist.

Hvar og hvenær sástu maka þinn fyrst? - Á styrktartónleikum fyrir Mæðrastyrksnefnd.

Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður forseti?

- Nei, það verður enginn tími í slíkt, forsetinn þarf strax að ganga í að koma á friðarsamningnum, ég ætla ekki að eyða peningum þjóðarinnar í einhver aukaatriði eða samkeppni við Íslenska bændur á Bessastöðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir