Mun sjá til þess að þjóðin ráði örlögum auðlinda sinna | Steinunn Ólína

Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir gaf Feyki.

Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Ég hef ein frambjóenda gefið það kosningaloforð að þjóðin fái að ráða örlögum auðlinda sinna með þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég kem ekki úr stjórnmála- eða embættismannastétt og hef engra viðskiptahagsmuna að gæta. Ég er því ekki höfundur og ábyrgðarmaður stjórnarfrumvarpa þeirra sem varða framtíð og eignarhald auðlinda okkar sem nú koma til afgreiðslu þingsins og þess vegna er hægt að treysta því að ég taki ætíð afstöðu með landsmönnum en ekki stjórnvöldum í þeim efnum.

Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Vegna þess að ég af ástríðu vil tryggja Íslendingum yfirráð yfir auðlindum sínum og framtíð. Ég lít svo á að það sé á okkar ábyrgð að þakka þeim sem á undan gengu og börðust fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Það gerum við með því að verjast ágangi þeirra sem eiga og ráða og vilja fyrir skyndigróða selja undan okkur landið, svo okkur megi auðnast að skila landinu áfram til komandi kynslóða. Þetta þurfum við að tryggja með stjórnarskrárbreytingum.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Að fyrrum forsætisráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á stjórnarfrumvörpum sem eiga eftir að koma til afgreiðslu þingsins skuli halda að það sé trúverðugt að hún muni synja þeim staðfestingar í embætti forseta. Að mínu mati getur hún ekki vikist undan að hafa ætlað að framselja um ókomna tíð íslenskar náttúruauðlindir til útlendinga en það kveða frumvörpin á um, eins og hún kom þeim til þingsins.

Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Að missa maka minn, Stefán Karl Stefánsson, langt fyrir aldur fram.

Hvar og hvenær sástu maka þinn fyrst? - Ég kynntist Stefáni Karli heitnum í Þjóðleikhúsinu þar sem við vorum bæði við störf.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Ég ætlaði að verða bóndi enda var ég öll sumur í sveit hjá föðurfjölskyldu minni.

Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður forseti? - Ef tími gæfist til slíks hefði ég gaman af því að rækta kartöflur og aðrar matjurtir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir