Léttitækni skiptir um eigendur

Mynd frá undirritun kaupsamnings en á henni eru kaupendur og seljendur, „...ásamt þessu fínu ólögráða vottum sem gætu borið fyrir sig minnisleysi ef það hentar þeim vel í það skiptið,“ segir í laufléttri tilkynningu á Facebook-síðu Léttitækni.
Mynd frá undirritun kaupsamnings en á henni eru kaupendur og seljendur, „...ásamt þessu fínu ólögráða vottum sem gætu borið fyrir sig minnisleysi ef það hentar þeim vel í það skiptið,“ segir í laufléttri tilkynningu á Facebook-síðu Léttitækni.

Húnahornið segir frá því að húnvetnska fyrirtækið Léttitækni, sem verið hefur í eigu Jakobs J Jónssonar og Katrínar Líndal síðastliðin 29 ár, hafi fengið nýja eigendur. Jóhann S Jakobsson og Bergþóra I Sveinbjörnsdóttir hafa keypt reksturinn og ætla að halda áfram því góða starfi sem þar hefur verið unnið en í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Léttitækni hafi vaxið og dafnað með góðri hjálp framúrskarandi starfsfólks og viðskiptavina í gegnum árin.

Einhverjar breytingar fylgja kynslóðaskiptum af þessu tagi en í tilkynningunni kemur fram að Jóhann taki við framkvæmdastjórastöðu af Jakobi sem verður áfram í vinnu hjá Léttitækni við hin ýmsu störf.

„Léttitækni hefur tekið nokkrum breytingum í gegn um árin, frá því að vera dekkja- og járnsmíðaverkstæði með lítilsháttar innflutningi yfir í öflugt sérhæft innflutningsfyrirtæki á sviði hjálpartækja alls atvinnulífsins með góðum stuðningi járnsmíðaverkstæðis í Húnabyggð,“ segir í tilkynningunni.

Starfsstöðvar Léttitækni verða í Reykjavík og Húnabyggð ásamt skrifstofu á Skagaströnd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir