„Í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð“
Kröfur fjármálaráðuneytisins um eignarhald á eyjum og skerjum, sem byggðar eru á vinnu óbyggðanefndar, hafa komið mörgum spánskt fyrir sjónir og hafa síður en svo slegið í gegn. Hér á Norðurlandi vestra slær óbyggðanefnd til að mynda eign ríkisins á 105 eyjar, hólma, björg og sker og þar á meðal Drangey, Þórðarhöfða og Hrútey í Blöndu svo eitthvað sé talið til. Það fellur síðan í hlut réttmætra eigenda að sanna eignarhald sitt.
Feykir spurði Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra Skagafjarðar, hvort þessi vinnubrögð að hálfu ríkisins gætu talist eðlileg eða hvort þetta væri hreinlega fúsk. „Nei, þetta eru í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð af hálfu íslenska ríkisins og þeim ekki sæmandi sem leggja svo illa undirbyggðar og lítt ígrundaðar kröfur fram,“ segir Sigfús Ingi.
„Það getur verið talsverð vinna og kostnaður sem fólgin er í því að sanna eignarhald sitt. Það er hins vegar rétt að vekja athygli á að að íslenska ríkið ber kostnað einstaklinga og lögaðila vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd, að teknu tilliti til tilgreindra skilyrða,“ bætir Sigfús við en skilyrðin má finna hér.
Byggðarráð Skagafjarðar fór yfir málið með Ólafi Björnssyni lögmanni á fundi þann 21. febrúar og samþykkti samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna að undirbúningi málsmeðferðar vegna eyja og skerja í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar, í samráði við Ólaf.
Ef einhver er að velta fyrir sér hver eigi Drangey þá er matarkistan gamla í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þórðarhöfði er í eigu jarðanna Bæjar og Höfða en Málmey er aftur á móti í eigu ríkisins. Hrútey í Blöndu, friðuð náttúru- og útivistarperla Blönduósinga, er í eigu Húnabyggðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.