Heimsókn í félags- og tómstundastarf eldri borgara og öryrkja á Blönduósi
Áður birt í jólablaði Feykis 2018, 28. nóvember 2018.
Í kjallara Hnitbjarga á Blönduósi er rekið blómlegt félags- og tómstundastarf fyrir 6o ára og eldri og öryrkja á Blönduósi og í Húnavatnshreppi. Þar kemur fólk af svæðinu saman tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum, og á góða samverustund yfir spilamennsku og margs kyns handavinnu. Feykir kom þar við á dögunum og leit á það sem þar er verið að fást við.
Það er Sigríður Hrönn Bjarkadóttir sem stýrir félagsstarfinu en þær eru þrjár sem koma að því. Hún segir starfið hafa verið lengi með svipuðu sniði og reynt sé að bjóða upp á það sem óskað er eftir, t.d. bútasaum, postulínsmálun, keramik og fleira. Konurnar séu duglegastar við prjónaskap og hekl en karlarnir hafi meira gaman af að spila lomber, bridge og vist. Einnig hafi margir gaman af að grípa í púsl ef það er í boði. Sigríður segir að 35-45 manns sæki félagsstarfið að jafnaði.
Á Blönduósi starfar líka félag eldri borgara og er framundan að halda litlu jólin í samvinnu við það. Eftir áramótin er svo á döfinni að halda námskeið í tálgun en Sigríður segir að það sem helst skorti á í starfinu hjá þeim sé aðstaða til að bjóða upp á einhvers konar smíðavinnu.
Starfsemin er með Facebooksíðuna Félags og tómstundarstarf aldraðra Blönduósi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.