Styttist vonandi í frumsýningu
Það hefur sennilega ekki farið framhjá mörgum að Leikfélag Sauðárkróks þurfti að fresta frumsýningu vegna veikina í leikhópnum. Fjölmargir voru þegar búnir að kaupa sér miða á sýninguna og ljóst að Litla hryllingsbúðin verður sýnd það er bara ekki alveg komið á hreint hvenær.
Feykir heyrði í Lullu (Sigurlaugu Dóru Ingimundardóttur), formann leikfélagsins, og spurði hvernig staðan væri. „Staðan er þannig að það eru ennþá veikindi innan hópsins, leikarar eru ennþá að glíma við að ná sér eftir flensu. En hópurinn er á batavegi.“
Blaðamaður var forvitinn að vita hvort LS hefði lent í viðlíka áður? „Í júní er ég búin að vera formaður í 15 ár og ég man eftir að hafa þurft að aflýsa sýningu einu sinni vegna veikinda en það var ekki frumsýning,“ segir Lulla. Svo það er ljóst að þau eru að kljást við nýjar aðstæður. Lulla bætir svo reyndar við að þau hafi samt áður lent í óvæntum aðstæðum eins og í covid, þá þurfti að fresta frumsýningu bæði Á frívaktinni og eins var frumsýningu á Ronju frestað einmitt á frumsýningardag en þá kom upp að innan hópsins var sóttkví, þó ekki væri smit í gangi. „Við erum ábyrgt félag og vinnum svona tilfelli í samráði við heilbrigðisyfirvöld og núna er engin unganþága á því. Hópurinn hefur ekki verið skimaður eða neitt slíkt. Heldur hafa þeir sem eru lasnir gert eins og okkur er upp á lagt að gera; vera heima og reyna að ná bata.“
Ekki lent í svona miklum veikindum áður
Lulla rifjar upp aðrar óvæntar aðstæður sem komu upp hjá Leikfélaginu þegar framkvæmdir töfðust í Bifröst og flytja þurfti sýninguna á Skilaboðaskjóðunni fram í Miðgarð. „Við höfum ekki lent í svona miklum veikindum áður þannig að það hafi þurft að fresta svona mörgum sýningum eins og núna en heilsa hópsins er í fyrsta sæti hjá okkur. Við bíðum hins vegar mjög spennt að fá að sýna ykkur fallegu og flottu sýninguna okkar,“ segir Lulla.
Nú frestar þetta sýningunum og færir tímabilið fyrir leikhópinn og því ekki úr vegi að spyrja hvort leikhópurinn geti fært sýningarnar án mikilla vandræða? „Já, leikhópurinn mun gera sitt besta til að losa sig eins og þarf til að geta bætt upp þær sýningar sem detta út. Einnig er samstarfið við Króksbíó gott og þau eru svo frábær að vera tilbúin að hliðra til fyrir okkur – fyrir það erum við þakklát.“
Lulla segist taka stöðuna dag frá degi og vonandi líði ekki langur tími þar til allir verði orðnir hressir og tilbúnir að sýna. „Óskastaða er í næstu viku,“ segir Lulla að lokum. Feykir óskar að sjálfsögðu leikhópnum góðs bata og hvetur lesendur til að fylgjast með hvenær sýningar fara í gang því þetta er sýning sem þið viljið ekki missa af.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.