NÓTAN í Miðgarði
NÓTAN 2024 - uppskeruhátíð tónlistarskólanna verður haldin næstu helgi með hátíðartónleikum á fjórum stöðum um landið. Uppskeruhátíð tónlistarskóla á Norðurlandi fer fram í Menningarhúsinu Miðgarði sunnudaginn 14. Apríl kl. 14.00 og eru allir velkomnir.
Tónlistarskólar landsins eru um 80 talsins og um 14.000 nemendur stunda nám innan tónlistarskólakerfisins. Tilgangur uppskeruhátíðarinnar er að beina kastljósinu að samfélagi tónlistarskóla og tónlistarnemenda með það að leiðarljósi að styrkja ungt tónlistarfólk og efla tónlistarmenntun og tónlistarlíf í samfélaginu!
Að Nótunni standa Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Samtök tónlistarskólastjóra (STS) og NÓTAN hefur verið árlegur viðburður hjá tónlistarskólunum frá árinu 2010. Hátíðin er í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið fyrir alla aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan.
Fyrirkomulag Nótunnar er með nýju sniði þannig að nú er um svæðistónleika að ræða en ekki er um eiginlega keppni að ræða lengur. Fyrstu tónleikarnir með þessu nýja sniði verða hér í Skagafirði. Hver skóli velur atriði sem verða á efnisskrá tónleikanna. Þeir skólar sem skráð hafa nemendur til þátttöku eru frá vestri og austur, Tónlistarskóli Austur- Húnvetninga, Tónlistarskóli Skagafjarðar,Tónadans Skagafirði,Tónlistarskólinn á Tröllaskaga ogTónlistarskólinn á Akureyri.
Skipulag og grunnhugsun uppskeruhátíðar tónlistarskóla byggir á því að þátttakendur séu frá öllu landinu, á ólíkum aldri og öllum stigum tónlistarnámsins. Fyrirkomulagi hátíðarinnar er ætlað að endurspegla ólík viðfangsefni tónlistarnemenda og það fjölbreytta starf sem fram fer innan tónlistarskóla.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.