Færi með Höllu systur á Madonnu tónleika / BERGLIND STEFÁNS
Bergind Stefánsdóttir er búsett í Vesturbæ Reykjavíkur, fædd 1979. Hún ólst upp í Varmahlíð og er dóttir Margrétar Guðbrandsdóttur, skólaritara og Stefáns R. Gíslasonar, tónlistarmanns. Berglind spilar á þverflautu og segist bjarga sér á píanó.
Helstu tónlistarafrek? -Að spila fyrir fyrrum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur þegar ég var 12 ára. Jú og svo hef ég fengið tækifæri til að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Uppáhalds tónlistartímabil? Ég á kannski ekkert sérstakt uppáhalds tímabil, ég spila tónlist frá öllum tímabilum og finnst það allt jafn skemmtilegt en hins vegar hefði ég algjörlega verið í essinu mínu í kringum 1960, því ég elska að hlusta á lög frá þeim tíma.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ævintýraóperan Baldursbrá, sem ég er að æfa um þessar mundir. Ég er að spila í þeirri uppfærslu í lok mánaðarins í Norðurljósasal Hörpu.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var hlustað á ýmislegt, þá kannski helst Bítlana, Queen, Ellý og Vilhjálm, jú og svo Pálma Gunnars.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Það var minnir mig diskur með Rage Against the Machine sem er algjörlega úr karakter við mig, en ég fílaði hana þvílíkt á sínum tíma!
Hvaða græjur varstu þá með? Þá var ég með Pioneer fermingargræjurnar sem mamma og pabbi gáfu mér.
Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Ég man sérstaklega eftir laginu Vertu ekki að plata mig með HLH flokknum, fannst þetta það allra besta lag sem ég hafði heyrt!
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég held ég geti bara ekki látið lag eyðileggja fyrir mér daginn, það hefur ekkert lag náð því hingað til allavega.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? Ég myndi segja ítalska júróvisjónlagið frá árinu 1964, Non hol’etá eða Heyr mína bæn sem það heitir á íslensku.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég fæ pottþétt Emmsjé Gauta sem býr neðri hæðinni hjá mér til að sjá um að halda uppi stuði og stemmningu.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Hljóðið í kaffivélinni minni.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi til London á tónleika með Madonnu og tæki Höllu systur mína með mér, sem var algjörlega forfallinn aðdáandi hér áður fyrr.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Þegar ég var lítil stelpa fannst mér Withney Houston alveg meiriháttar söngkona og horfði óendanlega oft á myndina Bodyguard, bara til að sjá hana í myndinni
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Úff…þetta er erfitt, þær eru svo margar. En það sem mér dettur fyrst í hug er Hvíta albúmið með Bítlunum, Queen plöturnar eru svaka flottar og svo er nýja platan hennar Bjarkar, Vulnicura alveg frábær.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Time after time með Chet Baker
Tvær stjörnur með Megas
Ég er komin heim með Memfismafíunni
Make you feel my love með Adele
Kría með Rósu Guðrúnu Sveinsdóttur
Summertime með Ellu Fitzgerald
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.