Uppskriftarbók Öbbu komin á Karolinafund
„Hvað get ég sagt annað en það hvað ég er þakklát! Söfnunarsíðan fyrir bókinni er komin í loftið, án ykkar hefði ég aldrei farið af stað með þetta verkefni mitt,“ skrifar Fjóla Sigríður Stefánsdóttir á Fésbókarsíðu sína en hún stefnir á að gefa út matreiðslubók með uppskriftum móður sinnar, Aðalbjargar Vagnsdóttur eða Öbbu eins og allir kölluðu hana. Þær mæðgur bjuggu á Sauðárkróki en Fjóla Sigríður býr nú í Kópavogi en Abba lést þann 28. október síðastliðin eftir erfið veikindi.
Söfnun er komin af stað á Karolinafund en þar segir að Abba hafi verið sjálflærður kokkur af guðs náð og skildi eftir sig mikinn uppskriftafjársjóð, uppskriftir sem hún handskrifaði í stílabók, setti í plastvasa og í möppu.
„Hún átti margar uppskriftir sjálf sem hún bjó til frá grunni og allir elskuðu þær. Hún átti sinn draum að gefa út bók en því miður gafst ekki kraftur eða tími í það fyrir hana. Mig langar að heiðra minningu hennar með því að safna saman uppskriftum sem hún gerði í gegnum tíðina og gefa út bók. Hugmyndin mín af er þó svolítið frábrugðin hefðbundnum uppskriftabókum að því leyti að ég mun um leið segja frá því hvernig hún komst í gegnum alla sína erfiðleika og veikindi einmitt með því að meðal annars matreiða og baka, svo þetta yrði uppskriftabók en um leið líka sagan hennar,“ segir í lýsingu verkefnisins á karolinafund.com þar sem frekari upplýsinga er að hafa.
„Þið hafið trú á mér og er ég rosalega spennt fyrir komandi tímum því ég mun leggja allt mitt í að gera þessa bók fallega. Ég hef 50 daga til þess að ná takmarkinu mínu, ég er komin með umbrot, hönnun og prentun fyrir bókina svo núna hefst full vinna við að skapa,“ skrifar Fjóla Sigríður og vill árétta að ef takmarkið náist ekki verður bakfært inn á öll kort sem greitt hefur verið með og verkefnið stöðvast og verður ekki framkvæmt.
"Ég þarf þinn stuðning til þess að geta gefið út bókina, og þess vegna stofnaði ég þessa styrktarsíðu. Ég ætla mér að skila þessu verkefni vel af mér og leggja allt í það að gera þessa bók fallega og sérstaka. Drauma útgáfudagur er 21. nóvember næstkomandi því mamma hefði fagnað 70 ára afmælinu sínu."
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.