Jólalag dagsins – Á Þorláksmessukvöldi
Þó að enn séu nokkrir dagar í Þorláksmessu er samt tilvalið að setja nýjasta jólalag landsins í loftið, þó það fjalli um þann daginn. „Í dag er ég þakklátur, stoltur og glaður!“ sagði höfundurinn við tíðindamann Feykis í gær þegar hann var spurður út í tilurð lagsins. Höfundurinn er Skagfirðingurinn Haukur Freyr Reynisson, oft kenndur við Bæ á Höfðaströnd, en í dag býr hann og fjölskyldan í Noregi.
„Mig langar til að fara með ykkur aftur til haustsins 2009. Á þeim tíma vorum við Lína mín að undirbúa flutninga frá Grafarholti norður í Fjörðinn fagra. Úti var stillt og gott veður, mjög fallegt haustveður í Reykjavík. En inni í mér ólgaði risavaxinn kvíði, óvissa, áhyggjur og vanmáttur, tilfinningar sem ég hef þurft að berjast við alltof oft í lífinu bæði fyrr og síðar. Núna á síðustu tveimur árum hefur mér gengið aðeins betur að vinna með sjálfan mig, bæði með því að sleppa áfenginu og hugsa betur um sjálfan mig og þau fjögur sem ég elska allra heitast, elskulegu Línu, Reyni, Kormák og Hrafnhildi.
En þarna var elsku Reynir okkar nýbúinn í einni af þeim fjölmörgu augnaaðgerðum sem hann átti svo eftir að þurfa að fara í. Lína gisti með honum á Barnaspítala Hringsins, ég var heima með hin tvö.
Eins og svo oft áður settist ég niður og byrjaði að spila einhvern spuna til að róa hugann, eitthvað sem hefur allt mitt líf hjálpað mér mikið, tónlist hefur nefnilega ótrúlega mikinn lækninga- og heilandi mátt.
Ég hef heyrt marga tónlistarmenn tala um að sum lög fæðist mjög auðveldlega og birtist nánast allt í einu fullkláruð. Og það var einmitt það sem ég upplifði þetta kvöld. Þegar ég var búinn að spila laglínuna yfir nokkrum sinnum, fann ég sterkt að ég þyrfti að setja saman textann. Í huganum fór ég til barnæskunnar og þar sem ég hef alltaf verið mikið jólabarn og á einungis góðar minningar frá jólunum, þá var textinn klár á nokkrum mínútum, ég man að ég hringdi svo í Línu og sagði henni að ég væri búinn að semja jólalag.
Mitt fyrsta jólalag!
En þetta er nú ekki allt. Í einhverju örvæntingarkasti fékk ég vini mína, Kristján Gíslason og Kristinn Kristjánsson, til að hjálpa mér að syngja og hljóðrita lagið og síðan sendi ég það inn á Rás 2 í jólalagakeppnina sem þá var í gangi, ekki komst það í úrslitin, ég var alveg temmilega svekktur! Síðan líða árin og ég týni upptökunni og er ekkert að hugsa mikið um þessa hluti, spilaði á tímabili lítið vegna mikillar vinnu og lífsins gangs.
Árið 2020 hefur ekki staðið undir væntingum, mér tókst að slasa mig í vinnunni í mars og síðan hef ég nánast ekkert getað unnið, en ég gat þó spilað aðeins þegar líða tók á árið og hægri höndin fór aðeins að virka aftur eftir uppskurð í maí. Þrautaganga í myrkri myndi einhver segja, en það birtir alltaf aftur! Orð að sönnu því núna í nóvember finnst lagið aftur, yndislegt vinafólk okkar átti afrit af laginu hjá sér og boltinn fer aftur að rúlla.
Það á ég allt elsku Línu minni og svo Reyni að þakka. Eitt er ég nefnilega ekki orðinn góður í en það er að kýla á hlutina og láta þá gerast, Lína veit aftur á móti oft hvernig ég virka best og þannig kom hún mér í gang með að láta gamlan draum rætast og taka lagið aftur upp og vanda betur til verka.
Hún sá Inga Sigþór syngja á Facebook, benti mér á hann, ég sagði vá, hann er góður. Reynir heyrði svo í honum og þar sem þeir eru góðir vinir var það létt verk; Ingi sagði -Já ég er til!
Þannig að á föstudegi þann 27. nóvember fyrir hádegi var ekkert sem sagði mér að ég væri að fara að vinna við lagið, og það yrði tilbúið 29. nóvember. Sama dag um kvöldið er ég kominn með frábæran upptökustjóra, gítarleikara og trommara, hann Sigfús Arnar Benediktsson, sem rekur Stúdíó Benmen á Sauðárkróki, algjör fagmaður. Ingi Sigþór var fljótur að læra lagið og syngur það eins og engill. Síðan fékk Sigfús konuna sína, Sigurlaugu Vordísi Eysteinsdóttur til að syngja bakrödd. Allt eru þetta hæfileikabúnt og yndislegar manneskjur og þar fyrir utan Skagfirðingar!
Nú verð ég að upplýsa að ég er frekar tæknifatlaður og eiginlega lifi á steinöld að sögn annarra fjölskyldumeðlima. Einhvern veginn tókst mér þó að senda hljómborðsspil mitt, frá Noregi með ósýnilegum bylgjum internetsins, yfir hafið og Sigfús vann svo með það, spilaði sjálfur bæði á gítar og trommur tók upp sönginn og gerði lagið að því sem það er í dag. Þúsund þakkir Sigfús, Ingi Sigþór og Sigurlaug Vordís. Einnig vil ég þakka dóttur minni Hrafnhildi sem setti lagið inn á Youtube, syni mínum Kormáki fyrir að kenna mér á upptökuforrit, Reyni og Línu minni fyrir þeirra hjálp og stuðning allan
Lagið sendi ég aftur í jólalagakeppni Rásar 2, mjög bjartsýnn um gott gengi, annað kom á daginn. En það skiptir bara litlu máli í stóra samhenginu. Í dag er 13. desember 2020. Allt í einu á ég lag á Spotify og Youtube sem ég get stoltur sett nafnið mitt við það sem eftir lifir ævinnar og ég er ekki hættur, það megið þið vita! Það eitt og sér er merkilega góð og yndisleg tilfinning fyrir mig, miðaldra karlmann í forréttindahópi.
Eitt vil ég segja að lokum. Ég er óendanlega þakklátur ykkur öllum sem hafa sent mér jákvæð og falleg skilaboð eftir að hafa hlýtt á, Á Þorláksmessukvöldi. Það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast og það gerast kraftaverk á hverjum degi.
Megið þið öll eiga gleðilega daga indæla jólahátíð og auðvitað gæfuríkt og gott komandi ár!
Með jólakveðju
Haukur Freyr Reynisson.“
HÉR er hægt að nálgast lagið á Spotify en fyrir neðan er splunkunýtt Youtubemyndband af laginu. Njótið!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.