Birna Ágústsdóttir sett tímabundið sem sýslumaður á Vesturlandi

Birna Ágústsdóttir sýslumaður á Norðurllandi vestra. MYND AF VEF STJÓRNARRÁÐSINS
Birna Ágústsdóttir sýslumaður á Norðurllandi vestra. MYND AF VEF STJÓRNARRÁÐSINS

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur sett Birnu Ágústsdóttur, sýslumann Norðurlands vestra, tímabundið sem sýslumann á Vesturlandi, frá 1. júní nk. til og með 31. maí 2025. Tilefni setningarinnar er beiðni Ólafs Kristófers Ólafssonar, sýslumanns, um lausn frá embætti. Birna mun gegna báðum embættunum á framangreindu tímabili.

Fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins að í ljósi þess að nú stendur yfir stefnumótunar- og greiningarvinna í málefnum sýslumanna og fyrirséð er að þeirri vinnu verður ekki lokið fyrir 1. júní 2024, þá var sú ákvörðun tekin að setja Birnu tímabundið til að gegna embættinu á Vesturlandi til viðbótar við eigið embætti á Norðurlandi vestra.

„Sú ákvörðun að setja sýslumenn tímabundið yfir fleiri en eitt embætti í stað þess að skipa nýjan til fimm ára, er tekin vegna þeirra tímamóta sem sýslumannsembættin standa nú á. Verið er að móta framtíðarstefnu í málefnum sýslumanna og þykir af þeirri ástæðu ekki rétt að taka ákvarðanir til lengri tíma um embættin sem kunna að fara gegn þeirri stefnu. Þannig var Kristín Þórðardóttir, sýslumaðurinn á Suðurlandi, sett tímabundið yfir embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum í október 2023. Þessi tilhögun er einnig í samræmi við þær áherslur ráðherra í málefnum sýslumanna að unnið verði að því að fella niður áhrif umdæmismarka gagnvart almenningi,“ segir í fréttinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir