Matgæðingur vikunnar - Nautavefjur og epladásemd
Þröstur Magnússon fékk áskorun frá vini sínum, Árna Geir Sigurbjörnssyni, og var Þröstur ekki lengi að koma með tvær uppskriftir sem ykkur á örugglega eftir að líka vel við. Þröst þekkja margir á Króknum en hann er eigandi Myndunar hf. sem býður upp á ýmiss konar þjónustu, allt frá fatamerkingum upp í bílamerkingar ásamt ýmsu öðru.
,,Ég hef gríðarlega gaman af því að borða góðan mat og finnst fátt skemmtilegra en að elda góðan mat fyrir góðan hóp af fólki. Ég er ekki mikið fyrir að notast við uppskriftir svo það var smá áskorun að koma þeim niður á blað. Skemmtilegast finnst mér að opna ísskápinn og sjá hvað er til og elda eitthvað upp úr því,” segir Þröstur.
AÐALRÉTTUR
Nautavefjur
500 g nautalund (eða annar góður biti)
salt, pipar og timjan
klettasalat (eða gott kál)
avakadó
tómatsalsa
chilimajó
8 góðar vefjur
Aðferð: Nautalundin krydduð og steikt upp úr smjöri á vel heitri pönnu þangað til hún hefur náð þeim kjarnhita sem þið óskið. 55°C ætti að henta flestum. Látið lundina standa í 10 mín. áður en hún er skorin niður í þunnar sneiðar. Raðið saman vefjunni og endið á að setja chilimajó yfir allt.
Tómatsalsa:
5 tómatar
½ rauðlaukur
2 msk. fetaostur
5 döðlur
Aðferð: Skerið tómatana í tvennt og notið t.d. teskeið til að hreinsa kjarnann úr og hendið frá. Tómatarnir, rauðlaukurinn og döðlurnar er skorið smátt niður. Blandið síðan fetaosti saman við með smá olíu af festaostinum.
Chilimajó:
½ krukka Hellemans majones
1 dós sýrður rjómi
3 tsk. sojasósa
1 tsk. hvílauksduft
4 tsk. chipotle mauk
2 tsk. chili flögur (má sleppa ef þú vilt hafa sósuna milda)
Aðferð: Öllu blandað vel saman (hægt að geyma í ísskáp í u.þ.b. 30 daga).
EFTIRRÉTTUR
Epla dásemd
300 g hveiti
salt (hnífsoddur)
175 g púðursykur
200 g smjör
3 epli
kanilsykur
karamellusósa (þykk)
vanilluís
Aðferð: Byrjið á að setja saman hveiti, salt, púðursykur og smjör og kremjið saman með höndunum þangað til úr verður svona mylsna með misstórum köglum. Gott er að smjörið sé ekki alveg nýkomið úr ísskáp. Næst afhýðið þið eplin og skerið í þunnar sneiðar. Raðið eplunum í eldfast mót og setjið kanilsykur og karamellusósu á milli laga, þegar öll eplin eru komin stáið þið blöndunni sem þið gerðuð áður yfir. Setjið í ofn við 170°C í 30-35 mín. Berið fram með vanilluís og karamellusósu.
Verði ykkur að góðu!
Þröstur skorar á vin sinn, Ragnar Helgason, að skila lesendum Feykis spennandi réttum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.