Hrossin drógu mig í Skagafjörð
Þau eru mörg og margvísleg störfin sem þarf að sinna á blessaðir jarðarkringlunni okkar. Á Syðstu-Grund í Blöndhlíðinni í Skagafirði býr Hinrik Már Jónsson sem lýsir sjálfum sér sem rúmlega miðaldra hvítum karlmanni. Hinrik starfar i verslun Olís í Varmahlíð en ver einnig töluverðum tíma sem hestaíþróttadómari og gæðingadómari. Sem dómari þeytist hann um víðan völl og nú nýverið var hann við dómarastörf í Svíþjóð en annars hefur starfið dregið hann til starfa beggja vegna Atlantsála og að sjálfsögðu einnig á miðju Atlantshafinu, Íslandi. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Hinrik Má.
Nú ert þú búsettur í Skagafirði en ættaður úr Þingeyjarsýslu, hvernig kom það til að þú endaðir hér? „Það má segja að hrossin hafi dregið mig í Skagafjörð en 1989 datt mér í hug að fara í Hólaskóla með aðal áherslu á hestamennsku. Kláraði það 1991 og fór þá að vinna á Hólum og seinna við tamningar á Úlfsstöðum og Vatnsleysu. Ég náði svo í hana Kollu mína og fór að búa með henni á Grund.“
Hvernig bar það til að þú varðst dómari og hvað þarf maður að gera til að verða dómari? „Ég lenti einhvern veginn á dómara-námskeiði á Akureyri 1986 en dæmdi lítið fyrr en eftir að ég kláraði reiðkennaradeildina á Hólum 1996. Þar tók ég gæð-ingadómarapróf en þetta eru próf á vegum LH sem þarf að ná og 1997 tók ég alþjóðaréttindin en það er nokkuð snúið próf og fáir ná nú í seinni tíð.“
Hvernig dæmir maður hross? „Snúin spurning en gott er svona til að byrja með að þekkja muninn á gangtegundum. Notaður er sérstakur leiðari sem eiginlega er best að kunna. Einkunnaskali frá 1 til 10 er svo varðaður með eldveggjum sem er allgjör nauðsyn að kunna.“
Hver er þinn bakgrunnur í hestamennsku? „Byrjaði bara smápolli að fara á bak með föður mínum. Á árunum upp úr 1980 var talsverð uppsveifla í hestamennsku í Þingeyjarsýslu. Ég fór á mitt fyrsta reiðnámskeið cirka tíu ára hjá Eyjólfi Ísólfs sem löngu seinna kenndi mér mikið á Hólum. Ég keppti talsvert á hestum hér áður fyrr, stundum með ágætum árangri, stundum með afleitum eins og gengur. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa keppnisreynslu til að geta verið nothæfur dómari. Einnig hef ég kennt reiðmennsku og það er gott í reynslubankann fyrir dómara.“
Er einhver hestur í uppáhaldi hjá þér? „Vængur frá Hólkoti var minn aðalkeppnishestur lengi vel. Hann kenndi mér mikið um þessa dýrategund. Hann var ekkert sérlega hrifinn af hringvöllum en það mátti ná samkomulagi við hann um að láta sig hafa það og nokkrum sinnum stóðum við okkur bara vel. Langbestur var hann þó á þriðja degi í hestaferð.“
Hvað ertu að dæma sirka mörg mót á ári? „Kannski 12 til 15, það er misjafnt,“ segir Hinrik og bætir við að hann hafi í ár dæmt á níu mótum erlendis. „Það er persónulegt met. Það hafa farið 30 dagar í þetta. Það er bara fínt. Maður þarf að dæma mikið til að halda sér í formi. Oftast er ég að fara einn frá Íslandi.“
Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir til að fara og dæma á, og af hverju? „Það eru engir uppá-haldsstaðir, þetta er allt svipað. Einhverra hluta vegna hef ég lang mest farið til Svíþjóðar, þeim finnst ég kannski aðeins minna leiðinlegur en öðrum finnst.“
Er erfiðara að dæma á einhverjum sérstökum stað, frekar en öðrum? „Nei. Ef dómara finnst erfitt að dæma einhver staðar ætti hann að gera eitthvað annað“
Að dæma hesta er án efa flókið verkefni. Hvernig tryggir þú að mat þitt haldist sanngjarnt og óhlutdrægt, sérstaklega í keppnum þar sem mikið er í húfi? „Bara að vera sjálfum sér samkvæmur og horfa á alla með sömu gleraugum.“
Hvaða kröfur eru gerðar til dómara í dag, eru haldin regluleg endurmenntunarnámskeið? „Til að halda íslensku réttindunum þarf að mæta á endurmenntun árlega. Hvað erlendu réttindin varðar þarf að minnsta kosti að dæma 15 daga yfir þriggja ára tímabil og mæta að minnsta kosti á eina ráðstefnu á því tímabili.“
Hvaða eiginleikar eru það að þínu mati sem gera það að verkum að einhver skarar fram úr sem dómari í hestaíþróttum eða gæðingakeppni? Hvaða ráð myndir þú gefa einstaklingum sem vilja fara þá leið? „Góð þekking á gangtegundum og reiðmennsku er grundvallaratriði. Fólk þarf líka að kunna að hrífast af því sem vel er gert. Maður þarf dálítið að hafa hesta á heilanum til að þetta virki allt saman.“
Eru einhverjar sérstakar áskoranir sem þú hefur staðið frammi fyrir sem dómari, annað hvort hvað varðar dóma á hestum eða að takast á við ýmsa aðra þætti hestamannasamfélagsins? „Hestaíþrótta og gæðingadómarar fá á sig gagnrýni eins og dómarar í öðrum íþróttum. Ég hef sloppið við leiðinda árásir en það hafa ekki allir kollegar mínir gert. Keppendur, og ekki síður eigendur keppnishrossa, eiga það til að nota samfélagsmiðla til að hrella dómara jafnvel í miðri keppni. Þetta er með öllu ólíðandi. Það er þannig að á mótum eru dómarar friðhelgir. Þurfi einhver að gera athugasemd við dóma þarf hann að snúa sér til yfirdómara sem eftir atvikum getur tekið upp málið við dómarahópinn. Ég hef stundum verið yfirdómari og tekið við einhverjum kvörtunum og oftast furðað mig á því hvers vegna fólk er að eyða tíma sínum í þetta því oftast er þetta tuð yfir engu. Að þessu sögðu er nú rétt að komi fram að langflestir kunna að haga sér í þessum efnum. Hestamenn þurfa að muna að þeir eru íþróttamenn og það er hluti íþróttamennskunnar að taka þeim dómum sem falla, hvursu vitlausir sem þeir þykja. Dómi verður ekki breytt.“
Manstu eftir einhverri eftirminnilegri sögu eða reynslu frá ferðum þínum erlendis sem þú ert til í að deila með okkur? „Það var nokkuð eftirminnilegt að dæma í Finnlandi í fyrsta skipti. Það var 2004, finnska meistaramótið. Öll umgjörð um mótið var fullkominn. Ég hafði einkaþjón sem sá um allar mínar þarfir eða næstum allar. Það vantaði bara eitt, góð hross og var reiðmennskan eftir því. Það brutust út fagnaðarlæti á áhorfendapöllunum ef einhver fór yfir 5 í einkunn. En Finnunum hefur farið mikið fram síðan og eru þeir höfðingjar heim að sækja.“
Að lokum, gætirðu deilt skoðunum þínum um framtíð keppni á íslenskum hestum? „Framtíðin getur vel verið björt ef fólk gleymir ekki að aðallega á þetta nú að vera gaman,“ segir Hinrik Már að lokum og Feykir þakkar honum fyrir spjallið.
- - - - -
Viðtalið birtist áður í tölublað 47 nú í desember, Þar má finna fleiri myndir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.